Reykjavíkurborg hefur krafið Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um sex milljarða króna vegna vangoldinna framlaga á árunum 2015-2018.
Krafan var send fjármála- og efnahagsráðuneytinu 20. desember en hún er nú til meðferðar hjá Ríkislögmanni.
Borgarlögmaður vísar í kröfugerðinni til dóms Hæstaréttar 14. maí í fyrra í máli 34/2018.
„Í umræddu máli komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu ...að óheimilt hafi verið...að fella niður jöfnunarframlag til sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
Með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar í máli 34/2018 telur Reykjavíkurborg að borgin hafi verið útilokuð með ólögmætum hætti frá því að eiga möguleika á að hljóta tiltekin framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Af þeirri ástæðu krefst Reykjavíkurborg þess að íslenska ríkið greiði Reykjavíkurborg fjárhæð sem nemur tekjujöfnunarframlögum, jöfnunarframlögum vegna reksturs grunnskóla og framlögum til nýbúafræðslu fyrir árin 2015-2018.
Er því gerð krafa um að íslenska ríkið greiði Reykjavíkurborg samanlagt kr. 5.860.817.432, eða sem nemur samanlagðri fjárhæð framangreindra framlaga. Jafnframt er gerð krafa um að fjárhæð hvers framlags verði greidd með vöxtum... Auk þess er áskilinn réttur til að krefjast dráttarvaxta af framangreindri fjárhæð,“ segir í kröfugerð borgarlögmanns í málinu. Til viðbótar gerir borgin kröfu um að útgjaldajöfnunarframlag fyrir árin 2015-18 verði endurákvarðað til hækkunar og að Reykjavíkurborg verði úthlutað framlagi vegna lækkunar tekna af fasteignasköttum. En krafan gæti leitt til þess að framlög til annarra sveitarfélaga verði endurmetin til lækkunar sömu ár.
„Jafnframt er þess krafist að Reykjavíkurborg hljóti framvegis framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til jafns við önnur sveitarfélög, þ.m.t. fyrir árið 2019.“
Borgarlögmaður rökstuddi kröfu sína með lagarökum. Þá meðal annars þeim að ákvæði reglugerða sem kveða á um framangreind framlög skorti fullnægjandi lagastoð.
„Í reglugerðum þessum er ýmist að finna ákvæði um reiknireglur sem útiloka Reykjavíkurborg frá því að hljóta umrædd framlög eða ákvæði sem útiloka Reykjavíkurborg berum orðum frá því að hljóta framlög. Þá skerða ákvæði reglugerðar nr. 1088/2018 um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verulega útgjaldajöfnunarframlög til Reykjavíkurborgar umfram það sem gildir um önnur sveitarfélög,“ skrifaði borgarlögmaður m.a.
Jafnframt kunni sveitarfélög sem reiða sig á framlög úr sjóðnum jafnvel að missa fótanna. Ef borgin vinni málið séu bæði brostnar forsendur fyrir hlutverki sjóðsins og trausti milli sveitarfélaga.
„Sveitarstjórnarmenn hvísla því á milli sín að þetta gæti sprengt upp samband sveitarfélaga, að sveitarfélögin á landsbyggðinni og mögulega fleiri sveitarfélög, gætu jafnvel skilið borgina eftir, á hvorn veginn sem það færi,“ segir hann.