Er innblásin af nornum og þjóðsögum

Karítas stefnir að því að teikna öll goðsagnadýrin úr norrænni …
Karítas stefnir að því að teikna öll goðsagnadýrin úr norrænni goðafræði. Instagram.com/karitasart
  • Karítas Gunnarsdóttir er 26 ára listakona og býr nú úti í Leeds í Bretlandi ásamt kærasta sínum sem einnig er listamaður.
  • Hún vinnur nú að því að teikna goðsagnadýr út norrænni goðafræði og stefnir á að gefa út hefti til þess að kynna dýrin og sögur þeirra fyrir þeim sem ekki þekkja. 
  • Hún segist fá innblástur frá göldrum og þjóðsögum og nýtur þess mest að teikna ævintýralegar verur og nornir sem eru að hennar sögn táknmyndir fullkomins femínisma.
  • Karítas gerir persónulegar teikningar af gæludýrum fólks sem hafa slegið í gegn sem jóla- og tækifærisgjafir.

Karítas Gunnarsdóttir er 26 ára nýútskrifuð listakona búsett í Leeds í Bretlandi þar sem hún starfar nú tímabundið í Leeds Arts University þaðan sem hún útskrifaðist á síðasta ári og vinnur að ýmsum verkefnum. 

Að eigin sögn hefur Karítas mestan áhuga á því að teikna dýr og fantasíuverur en hún teiknar meðal annars myndir af gæludýrum fólks og hefur ástríðu fyrir því að kynna íslenska goðafræði fyrir útlendingum í gegnum listina. 

Karítas tók þátt í nýlegri Instagram-áskorun sem fólst í að …
Karítas tók þátt í nýlegri Instagram-áskorun sem fólst í að hvetja listamenn til að blanda saman raunverulegri mynd af sér við teiknaða mynd eftir þá sjálfa. Instagram.com/karitasart

„Þegar ég útskrifaðist ákvað ég að teikna skepnur úr norrænni goðafræði þar sem ég hef gríðarlegan áhuga á henni,“ segir Karítas í samtali við K100.is en hún teiknaði myndir af hröfnum Óðins, Hugin og Munin, Fenrisúlfi, úlfasystkinunum Hata og Sköll og Sleipni, áttfættum hesti Óðins, fyrir lokaverkefnið sitt. Karítas notar blandaða tækni í teikningarnar og vinnur þær í silkiþrykki.

Karítas hefur þegar teiknað fjórar myndir af goðsagnadýrum úr norrænni …
Karítas hefur þegar teiknað fjórar myndir af goðsagnadýrum úr norrænni goðafræði. Instagram.com/karitasart

Karítas stefnir að því að teikna fleiri goðsagnadýr úr norrænni goðafræði úti í Leeds og ætlar að gefa út hefti eða bók með öllum dýrunum og upplýsingum um þau til að fræða útlendinga jafnt sem Íslendinga um þau. 

Segir Karítas að breskir vinir hennar hafi orðið mjög forvitnir við að skoða listaverk hennar af goðsagnadýrunum og segir að henni hafi komið á óvart að enginn þeirra skyldi þekkja dýr eins og Sleipni. 

Rugla saman Hollywood-myndum og norrænni goðafræði

„Maður áttar sig ekki alveg á því hvað norræn goðafræði er í raun óþekkt fyrir aðrar þjóðir. Við Íslendingar ólumst upp við að heyra þessar sögur og lærðum um þær í skóla,“ segir Karítas. 

Aðspurð segir hún algengt að útlendingar fái alla sína vitneskju um norræna goðafræði úr kvikmyndum eins og Marvel-myndunum Thor og Avengers sem nú eru afar vinsælar. 

„Fyrir um ári teiknaði ég Hel af því að ég var svo pirruð eftir að hafa horft á kvikmyndina Thor Ragnarrök þar sem hún var bara algjör skvísa. Í norrænni goðafræði er henni lýst sem hálfblárri sem er hægt að skilja þannig að hún sé hálfdauð,“ segir Karítas. „Mér finnst þetta frábær mynd en ég hugsaði bara, „Ó Hollywood!“ Þau gátu gert svo miklu betur.“

Karítas teiknaði norrænu goðsagnapersónuna Hel, gyðju dauðraheimsins út frá lýsingum …
Karítas teiknaði norrænu goðsagnapersónuna Hel, gyðju dauðraheimsins út frá lýsingum goðafræðinnar þar sem henni er lýst hálfri hörundslitaðri og hálfri blárri eins og lík. Instagram.com/karitasart

Myndasögurnar vinsælar

Karítas hefur einnig gaman að því að gera litlar myndasögur úr lífi sínu í ákveðnum stíl og segir að þær fái yfirleitt góðar viðtökur enda tengi fólk oft við sögurnar. 

„Það er mjög skemmtilegt finnst mér. Þá getur maður gert grín að sér og haft það gaman,“ segir Karítas og hlær. 

Myndasögur Karítasar eru afar vinsælar en þar gerir hún grín …
Myndasögur Karítasar eru afar vinsælar en þar gerir hún grín að lífi sínu. Hér vísar hún í áhuga sinn á glæpasögum og morðþáttum. Instagram.com/karitasart

Karítas selur verk sín bæði á listaverkamörkuðum í Bretlandi, sem hún segir afar vinsæla, í gegnum Facebook og einnig í netverslun sinni á Etsy þar sem hún er einnig með límmiða og prent af verkum sínum. 

Karítas framleiðir límmiða úr verkum sínum.
Karítas framleiðir límmiða úr verkum sínum. Facebook.com/tasaart

Nornir táknmyndir hinna fullkomnu femínista

Á Instagram-reikningi hennar má sjá fjölda verka af ýmsum ævintýrafígúrum. Aðspurð segist Karítas ekki vita hvers vegna hún heillist af því að teikna fantasíuverur.

„Ég er bara svo mikið í fantasíuveröld í hausnum á mér. Ég er alltaf að teikna eitthvað sem er ekki til, allt sem er óraunverulegt,“ segir hún og bætir við að hún hafi tekið ákveðin tímabil þar sem hún teiknaði nánast bara hafmeyjur og einhyrninga. 

Karítas hefur teiknað tugi mynda af einhyrningum af hinum ýmsu …
Karítas hefur teiknað tugi mynda af einhyrningum af hinum ýmsu stærðum og gerðum. Facebook.com/tasaart

„Mér finnst allt svona goðsagnakennt svo skemmtilegt. Ég myndi segja að ég væri mjög innblásin af göldrum, nornum og þjóðsögum.“

Margar teikningar Karítasar eru af nornum og segist hún líta á nornir sem eins konar táknmynd fyrir femínista en hún fjallaði meðal annars um tengslin milli norna og femínisma í lokaritgerð sinni í náminu. 

Fyrir Karítas eru nornir táknmyndir hins fullkomna femínisma.
Fyrir Karítas eru nornir táknmyndir hins fullkomna femínisma. Instagram.com/karitasart

„Nornir eru auðvitað bara sterkar og klárar konur sem láta engan stjórna sér, þess vegna fannst mér þær vera hinir fullkomnu femínistar,“ segir Karítas. „Ég vildi endurheimta orðið „norn“ á jákvæðan hátt en orðið hefur lengi verið notað til að uppnefna konur á neikvæðan hátt.” 

Teiknar gæludýr fólks

Karítas tekur að sér að teikna fallegar og persónulegar myndir …
Karítas tekur að sér að teikna fallegar og persónulegar myndir af gæludýrum fólks. Instagram.com/karitasart

Karítas hefur teiknað gæludýr fólks um nokkurt skeið og segir að vinsældir myndanna hafi komið henni nokkuð á óvart en hún byrjaði á því að teikna dýr vina sem sögðu vinum og kunningjum sínum frá. Segir hún marga hafa nýtt gæludýrateikningarnar sem jóla- og tækifærisgjafir og að teikningarnar hafi verið sérstaklega vinsælar fyrir jólin. 

„Ég elska að teikna dýr og ég held að það sé gaman fyrir gæludýraeigendur að eiga teiknaða mynd af gæludýrinu sínu. Það er oft líka erfitt að taka mynd að gæludýrum svo það er fínt að fá bara teiknaða,“ segir Karítas og hlær.

Facebook.com/tasaart

Karítas heldur úti samfélagsmiðlum fyrir verk sín og er hægt að fylgjast með henni á Instagram og Facebook

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert