„Við erum hvergi örugg nema á Íslandi“

Maní er alvörugefinn ungur drengur með sterka réttlætiskennd. Hér má …
Maní er alvörugefinn ungur drengur með sterka réttlætiskennd. Hér má sjá hann á mótmælunum í dag. mbl.is/Ragnhildur

„Ísland er fyrsti staðurinn sem ég hef komið til þar sem ég finn fyrir öryggistilfinningu sem nær alveg niður í dýpstu hjartarætur. Ég hitti fólk sem er óhrætt við að vera það sjálft og þá fann ég öryggið til að koma út sem transstrákur í fyrsta skipti,“ segir Maní, sautján ára transdrengur frá Íran sem bíður brottvísunar. 

Vísa á honum og fjölskyldu hans úr landi klukkan sjö í fyrramálið. Um 7.000 manns hafa skrifað undir áskorun á stjórnvöld þess efnis að skoða mál fjölskyldunnar. Ef Maní hefði verið hér á landi í þrjár vikur til viðbótar hefði Útlendingastofnun verið skylt að taka mál hans til skoðunar, að sögn Elínborgar Hörpu Önundardóttur sem starfar fyrir mannréttindasamtökin No Borders Iceland. 

Hún segir sömuleiðis að sálfræðingur Manís mæli harðlega gegn því að hann sé sendur úr landi. Það geti haft mjög neikvæð áhrif á hans sálræna ástand.

Fjölskyldan dvaldi í Portúgal í viku á ferðalagi sínu frá Íran til Íslands. Þar fékk fjölskyldan ekki hæli heldur einungis vegabréfsáritun til þess að ferðast áfram. Nú á að vísa fjölskyldunni til Portúgal en þar leitar hópur Írana hennar, að sögn No Borders. Í Íran hefur faðir Manís verið ofsóttur, pyntaður og fangelsaður vegna trúarskoðana.

Einföld skilaboð til Áslaugar Örnu

Fjölskyldan hefur dvalið hér á landi í tæpt ár. Maní hefur eignast marga góða vini og mætti fjöldi fólks til þess að styðja hann og fjölskyldu hans á mótmælum sem fram fóru fyrir framan dómsmálaráðuneytið og Alþingishúsið í dag.

Frá mótmælunum í dag.
Frá mótmælunum í dag. mbl.is/Íris

„Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa kynnst svona mörgum nýjum vinum á Íslandi sem hafa hjálpað mér. Ég vil ekki fara aftur til Portúgal, ég þarf á röddum ykkar að halda,“ segir Maní.

Hann hræðist það sem bíður hans í Íran. „Ef ég fer aftur til Írans verð ég aldrei samþykktur af samfélaginu. Það er bæði hættulegt fyrir mig og fjölskyldu mína að fara þangað vegna þess að líf okkar eru í hættu í Íran og sömuleiðis í Portúgal. Við erum hvergi örugg nema á Íslandi. Við þurfum á Íslendingum að halda og hjálp samfélagsins.“

Spurður hvað hann myndi vilja segja við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra segir Maní einfaldlega:

„Ég er líka barn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka