Fagnaðarefni að boðað hafi verið til fundar

Sólveig Anna segir samninganefnd Eflingar hafa fundað alla helgina.
Sólveig Anna segir samninganefnd Eflingar hafa fundað alla helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, vill lítið gefa upp um hvort eitthvað hafi gerst eða breyst sem varð til þess að ákveðið var að boða til fundar í kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar klukkan tíu í fyrramálið. Hún segir það hins vegar fagnaðarefni að boðað hafi verið til fundar. Það séu tíðindi út af fyrir sig.

Samninganefnd Eflingar fundaði alla helgina, en fundað hefur verið með trúnaðarmönnum Eflingar hjá Reykjavíkurborg og því verður haldið áfram, að sögn Sólveigar. „Okkar megin höfum við verið að vinna og ráða okkar ráðum. Við tökum þetta allt gríðarlega alvarlega. Þarna erum við að fjalla um kjör okkar fólks sem tekur að fullu leyti þátt í þessari baráttu með okkur. Við vöndum til verka í öllu því sem við gerum.“

Ótímabundið verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hófst á miðnætti en þá lögðu um 1.800 félagsmenn niður störf. Mikill fjöldi kom saman í Iðnó í hádeginu þar sem fór fram baráttufundur.

Hvað verkfallsbrot varðar segir Sólveig að ekki hafi komið upp grunur um nein slík brot í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka