Fundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara í deilu Eflingar stéttarfélags og Reykjavíkurborgar klukkan tíu í fyrramálið. Þetta kemur fram á heimasíðu ríkissáttasemjara. Ótímabundið verkfall félagsmanna hófst á miðnætti þegar um 1.800 félagsmenn lögðu niður störf.
Mikill fjöldi félagsmanna Eflingar var samankominn í Iðnó í hádeginu þar sem fram fór baráttufundur. Þar kom fram í máli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, að mikill fjöldi undanþágubeiðna sem hefur borist til Eflingar vegna verkfallsins sýni svart á hvítu hversu mikilvæg störf félagsfólk vinni.