„Öll aðildarfélög eru búin að eiga í samtali við sína félagsmenn á undanförnum vikum og niðurstaðan er mjög skýr um að það eigi að grípa til aðgerða til að þrýsta á um gerð kjarasamninga,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við Morgunblaðið.
Atkvæðagreiðsla um boðun verkfallsaðgerða hjá allt að 18 þúsund félagsmönnum BSRB hófst í dag og stendur fram á miðvikudag. Verkfallsaðgerðir gætu hafist 9. mars og ótímabundið allsherjarverkfall 15. apríl náist samningar ekki fyrir þann tíma.
Sonja segir að launaliðurinn hjá mörgum aðildarfélaga BSRB standi út af þar sem ekki hafi öllum borist tilboð sem eru í samræmi við lífskjarasamningana. „Svo er krafa okkar um jöfnun launa milli markaða alfarið eftir og þá er eftir að ræða og finna niðurstöðu varðandi áherslu orlofs,“ útskýrir Sonja og bætir við að hún sé ekki vongóð um að samningar náist fyrir fyrirhugað verkfall.
Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, er öllu bjartsýnni en Sonja. „Við höfum meðal annars verið að ræða vinnutímastyttingu og í tilboði ríkisins er sambærilegur vinnutími og samið var um á almennum vinnumarkaði sl. vor. Launaliðurinn er alveg sambærilegur við lífskjarasamningana þar sem áhersla er á lægstu laun og að tryggja kaupmátt,“ segir Sverrir. Samninganefnd ríkisins fundar með Sameyki á morgun og BSRB síðar í vikunni.