Stór hluti sveitarfélaga á því svæði þar sem óveðrið gekk yfir 10. og 11. desember sl. varð fyrir mismiklum truflunum í fjarskiptakerfinu. Alls misstu um 30 sendar samband á einhverjum tímapunkti, og varði rof frá 10 mínútum og allt að u.þ.b. 24 klst. Samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínu voru tíu sendar úti í um tvo sólarhringa.
Þetta kemur fram í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á Alþingi við fyrirspurn Njáls Trausta Friðbertssonar alþingismanns um öryggi fjarskipta. „Rofið var ekki samfellt á öllum sendum. Rofið varð á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Flest þéttbýlissvæði voru með fjarskiptasamband að einhverju leyti og brugðið var á það ráð að virkja reiki milli fjarskiptafélaganna á nokkrum stöðum. Til að lengja líftíma varaafls var í sumum tilfellum slökkt á hluta af virkni farneta, t.d. gagnaflutningi í 4G,“ segir í svarinu.
Fram kemur að fjarskiptainnviðir, þ.e. möstur, sendabúnaður og línur, urðu ekki fyrir skemmdum og var langvarandi rafmagnsleysi meginástæða truflana í fjarskiptakerfunum. „Langvarandi rafmagnsleysi líkt og í fárviðrinu 10. og 11. desember sl. var fordæmalaust. Í rafmagnsleysi reynir á varaafl og eftir að varaafl þrýtur stöðvast almenn fjarskiptaþjónusta í langvarandi rafmagnsleysi,“ segir í svarinu.
Bent er á að samningar um TETRA-kerfið komi til endurnýjunar á næstu árum og að huga þurfi nú þegar að næsta skrefi og meta hvort almenn farnet geti tekið við hlutverki sem neyðarfjarskiptakerfi fyrir neyðar- og björgunaraðila.
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) vinnur að því að kortleggja fjarskiptakerfi landsins og kemur fram í fjölmörgum ábendingum hennar að tryggja þurfi að PFS verði hluti af æfingum almannavarna og kortleggja þurfi öll fjarskiptakerfi landsins á einum stað til að fá heildarsýn yfir þau og stöðu þeirra á hverjum tíma, þ.m.t. í hamfaraástandi.
„Í óveðrinu í desember sl. var útfall rafmagns hátt í þrír sólarhringar á sumum svæðum. Ráðast þarf í að efla varaafl verulega og grípa til annarra ráðstafana, svo sem tvítenginga, til að efla rekstraröryggi,“ segir í svari ráðherrans.