Samninganefndir Reykjavíkurborgar og Eflingar komu saman til fundar í húsakynnum ríkissáttasemjara kl. 10 í morgun, en síðasti fundur deiluaðila hjá sáttasemjara fór fram 7. febrúar.
Boðað var til fundarins í gær. Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, sagði við Morgunblaðið í gærkvöldi að mikill vilji væri til þess að ná lausn í deilunni.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði það sömuleiðis fagnaðarefni að boðað hefði verið til fundar í deilunni.
Ótímabundið verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hófst á sunnudagskvöld, en það tekur til um 1.850 félagsmanna sem vinna margvísleg störf hjá borginni á 129 starfsstöðvum, meðal annars á leikskólum, við umönnun, sorphirðu og fleira.