Vilja að gripið verði til tafarlausra aðgerða

Mörg alvarleg slys hafa orðið á Hörgárbraut.
Mörg alvarleg slys hafa orðið á Hörgárbraut. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Skorað er á Akureyrarbæ og Vegagerðina að grípa til tafarlausra aðgerða til að auka öryggi vegfarenda á þjóðvegi 1 um Hörgárbraut. Lagt er til að ráðist verði tafarlaust í merkingarátak um hámarkshraða og umferð skólabarna. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á íbúafundi fyrir Holta- og Hlíðahverfi á Akureyri í Glerárskóla fyrr í kvöld. Umræðuefnið var slysahætta á þjóðvegi 1 um Hörgárbraut.

Á Hörgárbraut, milli Undirhlíðar og Borgarbrautar, hafa orðið mörg umferðaróhöpp og alvarleg slys á vegfarendum og skora þeir sem sóttu fundinn á alla ökumenn að fara varlega á svæðinu í ljósi hárrar slysatíðni.

mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

„Við óskum eftir því að gangbraut yfir Hörgárbraut norðan Glerárbrúar verði lokað og hún fjarlægð eins fljótt og hægt er [til] að beina gangandi umferð örugga leið, til dæmis með undirgöngum undir Hörgárbraut eða göngubrú. Spyrjum hvers vegna ekki hefur verið ráðist í undirgöng á kaflanum milli Undirhlíðar og Borgarbrautar eins og gert er ráð fyrir í deiliskipulagi sem samþykkt var af Skipulagsnefnd Akureyrar þann 9. júní 2010 og óskum þess að fá skýringar á því án tafar.“

Ályktunin verður send á bæjarfulltrúa Akureyrarbæjar og fulltrúa Vegagerðarinnar. „Við óskum eftir því að tekið verði mark á þessu ákalli og erum að sjálfsögðu opin fyrir því að hitta hlutaðeigandi fulltrúa til að ræða málin frekar,“ segir jafnframt í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert