Gefin hefur verið út appelsínugul viðvörun fyrir Suðausturland síðar í dag og fjöldi gulra viðvarana tekur gildi þegar líður á daginn. Kröpp lægð nálast landið og eins er von á norðaustanhvassviðri á morgun. Engin hlýindi né rólegheit er að sjá í veðurkortum næstu daga.
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi klukkan 17-22 í dag. „Norðaustan 18-28 m/s með talsverðri snjókomu eða slyddu, hvassast i Mýrdal og við Öræfajökul þar sem vindhviður geta staðbundið farið yfir 35 m/s. Ekkert ferðaveður.“
Á Suðurlandi er gul viðvörun í gildi klukkan 15-22 og við Breiðafjörð frá klukkan 22 í kvöld til klukkan 18 á morgun. Á Vestfjörðum er gul viðvörun í gildi frá klukkan 22 í kvöld og gildir hún til klukkan 21 annað kvöld.
Á Ströndum og Norðurlandi vestra gildir gul viðvörun frá klukkan 21 í kvöld þangað til 20 annað kvöld og á Norðurlandi eystra frá klukkan 19 í kvöld og er hún í gildi í sólarhring. Á Austurlandi að Glettingi er gul viðvörun í gildi frá klukkan 18 í dag þangað til klukkan 6 í fyrramálið. Á Austfjörðum frá klukkan 18 þangað til 8 í fyrramálið. Á miðhálendinu er gul viðvörun í gildi frá klukkan 17 í dag og gildir hún þangað til snemma í fyrramálið.
„Nú nálgast kröpp og dýpkandi lægð sunnan úr hafi sem veldur því að hvessir talsvert úr austri og síðar norðaustri og fer að snjóa síðdegis, fyrst syðst á landinu.
Í kjölfarið gerir talsvert hríðarveður undir Eyjafjöllum og í Mýrdal og síðar einnig á Suðausturlandi og Austfjörðum. Seint í kvöld og nótt hvessir einnig með hríð á Norðurlandi. Því hafa verið sendar út gular og appelsínugular viðvaranir og eru ökumenn hvattir til að búa sig undir alvöruvetrarveður í dag.
Hlýnar þó heldur í kvöld og fer að rigna við austurströndina. Í fyrramálið gengur á með norðaustanhvassviðri eða -stormi og ofankomu á norðanverðu landinu en birtir til syðra.
Dregur smám saman úr vindi síðdegis og kólnar heldur. Engin hlýindi né rólegheit er að sjá í veðurkortum næstu daga enda um að gera að þreyja góuna,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Veðurspá fyrir næstu daga
Hæg suðlæg eða breytileg átt og dálítil él sunnan- og vestanlands, en annars þurrt að kalla. Frost 0 til 8 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan. Vaxandi austan- og síðar norðaustanátt eftir hádegi og þykknar upp, 18-25 m/s suðaustan til og einnig allra syðst síðdegis með snjókomu eða slyddu. Hvessir víðar á landinu með ofankomu í kvöld, en hægara og úrkomulítið á Vesturlandi. Hlýnar heldur í veðri í dag og fer að rigna með austurströndinni seint í kvöld.
Norðaustan 15-23 m/s í fyrramálið, hvassast NV til og snjókoma eða éljagangur, en birtir til syðra. Norðlægari og dregur smám saman úr vindi síðdegis og kólnar í veðri.
Á fimmtudag: Norðan og norðaustan 15-23 m/s framan af degi, en dregur síðan úr vindi, 13-20 síðdegis, hvassast NV til. Snjókoma eða él á N-verðu landinu, en hægara og bjartviðri syðra. Hiti nálægt frostmarki.
Á föstudag: Norðaustan 10-15 m/s og éljagangur, en austlægari og snjókoma eða slydda syðst. Hiti kringum frostmark.
Á laugardag: Norðlæg átt og él víða á landinu, en bjartviðri SV-lands. Kólnandi veður. Á sunnudag: Vestlægar áttir og víða él, en léttskýjað NA til. Frost 2 til 10 stig.
Á mánudag og þriðjudag: Líklega breytilegar áttir með éljum á víð og dreif og talsverðu frosti á öllu landinu.