Dómur í máli Elínar væntanlegur í Strassborg

Sigríður Elín Sigfúsdóttir var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands fyrir hrun. …
Sigríður Elín Sigfúsdóttir var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands fyrir hrun. Fallist hefur verið á endurupptöku máls hennar fyrir Hæstarétti og dóms er að vænta í máli hennar gegn ríkinu fyrir MDE á þriðjudaginn í næstu viku. mbl.is/Þórður

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu mun í næstu viku kveða upp dóm í máli Sig­ríðar El­ín­ar Sig­fús­dótt­ur gegn ís­lenska rík­inu, en Elín var árið 2015 dæmd til eins og hálfs árs fang­elsis­vist­ar af Hæsta­rétti fyr­ir umboðssvik og þátt­töku í markaðsmis­notk­un í hinu svo­kallaða kauprétt­ar­máli Lands­bank­ans, sem einnig er þekkt sem Ímon-málið.

Elín starfaði sem fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­sviðs bank­ans fyr­ir hrun.

Elín höfðaði mál gegn rík­inu fyr­ir MDE á þeim grund­velli að hluta­bréfa­eign þriggja dóm­ara við Hæsta­rétt Íslands í ís­lensku viðskipta­bönk­un­um fyr­ir hrun hefði haft áhrif á niður­stöðu þeirra í mál­inu. Málsmeðferðin í Hæsta­rétti hefði þannig verið á skjön við bæði ís­lensku stjórn­ar­skrána og ákvæði mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu.

Fleiri ís­lensk mál sem varða hluta­bréfa­eign dóm­ara sem dæmdu ís­lenska banka­menn til refs­inga fyr­ir mál sem tengd­ust starf­semi bank­anna fyr­ir hrun eru til meðferðar hjá MDE.

Unnið að end­urupp­töku máls­ins fyr­ir Hæsta­rétti

End­urupp­töku­nefnd féllst á það í fyrra að mál El­ín­ar yrði tekið fyr­ir í Hæsta­rétti að nýju, rétt eins og mál Sig­ur­jóns Árna­son­ar, fyrr­ver­andi banka­stjóra Lands­bank­ans, sem einnig var dæmd­ur til fang­elsis­vist­ar í sama máli.

Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn kveður upp dóm sinn í máli El­ín­ar á þriðju­dag, 25. fe­brú­ar, sam­kvæmt frétta­til­kynn­ingu sem send var frá Strass­borg í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert