Mannréttindadómstóll Evrópu mun í næstu viku kveða upp dóm í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn íslenska ríkinu, en Elín var árið 2015 dæmd til eins og hálfs árs fangelsisvistar af Hæstarétti fyrir umboðssvik og þátttöku í markaðsmisnotkun í hinu svokallaða kaupréttarmáli Landsbankans, sem einnig er þekkt sem Ímon-málið.
Elín starfaði sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans fyrir hrun.
Elín höfðaði mál gegn ríkinu fyrir MDE á þeim grundvelli að hlutabréfaeign þriggja dómara við Hæstarétt Íslands í íslensku viðskiptabönkunum fyrir hrun hefði haft áhrif á niðurstöðu þeirra í málinu. Málsmeðferðin í Hæstarétti hefði þannig verið á skjön við bæði íslensku stjórnarskrána og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.
Fleiri íslensk mál sem varða hlutabréfaeign dómara sem dæmdu íslenska bankamenn til refsinga fyrir mál sem tengdust starfsemi bankanna fyrir hrun eru til meðferðar hjá MDE.
Endurupptökunefnd féllst á það í fyrra að mál Elínar yrði tekið fyrir í Hæstarétti að nýju, rétt eins og mál Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, sem einnig var dæmdur til fangelsisvistar í sama máli.
Mannréttindadómstóllinn kveður upp dóm sinn í máli Elínar á þriðjudag, 25. febrúar, samkvæmt fréttatilkynningu sem send var frá Strassborg í dag.