Fjórar smárútur fóru út af veginum á Suðurlandi á fjórða tímanum í dag.
Þar af fóru þrjár rútur út af á þjóðvegi eitt við Reynisfjall en sú fjórða fór út af við Hof í Öræfum. Engan sakaði en færðin er slæm með tilheyrandi hálku. Átján ferðamenn voru í síðastnefndu rútunni.
Að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi, voru björgunarsveitir kallaðar á vettvang á báða staðina.
Búið er að loka veginum undir Eyjafjöllum að Vík og frá Gígjukvísl að Jökulsárlóni. Þar með er lokað fyrir þá sem ætla að fara frá Kirkjubæjarklaustri að Höfn í Hornafirði.