Krapabylur og fjöldi bíla úti í vegkanti

Jónas keyrði fram á nokkra bíla sem höfðu farið út …
Jónas keyrði fram á nokkra bíla sem höfðu farið út af veginum. Starfsmenn Vegagerðarinnar komu fólki til aðstoðar. mbl.is/Jónas Erlendsson

Krapabylur er nú á Suðurlandi og Suðausturlandi og hafa nokkrir bílar farið þar út af veginum rétt austan við Vík í Mýrdal.

Jónas Erlendsson, fréttaritari mbl.is á Suðurlandi, var að leggja af stað heiman frá sér úr Fagradal, rétt austan við Vík, og til Víkur, þegar blaðamaður náði tali af honum. Hann var rétt lagður af stað en búinn að mæta þremur bílum sem höfðu farið út af veginum. Tveimur mannlausum, en í þeim þriðja voru tveir ferðamenn sem höfðu misst bíl sinn út af veginum og máttu þakka fyrir að hann valt ekki.

Jónas fékk öðrum ferðamannanna símann og virtist hann ansi skelkaður. „Við fórum út af veginum og bíllinn er fastur. Það er mjög vont veður hérna. Við erum að reyna að komast á gistiheimili þar sem við ætluðum að eyða nóttinni,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Krapabylur er á svæðinu að sögn Jónasar og mikið krap á veginum, en appelsínugul viðvörun er í gildi á öllu Suðurlandi og Suðausturlandi til klukkan 22 í kvöld.

Bílaröð myndaðist við lokunarskiltið í Vík.
Bílaröð myndaðist við lokunarskiltið í Vík. mbl.is/Jónas Erlendsson

Vegagerðin er á svæðinu með mannskap til að aðstoða fólk við að komast til Víkur en ekki verður reynt að fjarlægja bíla sem hafa farið út af fyrr en á morgun. Þá er bílaröð fyrir aftan lokunarskiltið við Vík þannig að ljóst er að ekki hafa allir kynnt sér veðurspá og fyrirhugaðar lokanir áður en þeir lögðu af stað.

Jónas segir töluvert margt fólk vera í Vík og hótel þar eru farin að fyllast því ljóst er að ekkert ferðaveður verður fyrr en í fyrsta lagi seint í kvöld og líklega ekki fyrr en á morgun.

Í spá veðurstofunnar segir að búast megi við talsverðri snjókomu eða slyddu og norðaustan 18 – 28 metrum á sekúndu. Gera má ráð fyrir að hvassast verði í Mýrdal og við Öræfajökul og staðbundnar vindhviður geta farið yfir 35 metra á sekúndu.

Fjórar smárútur fóru út af þjóðvegi 1 á Suðurlandi fyrr í dag, þrjár við Reynisfjall og sú fjórða við Hof í Öræfum. Engan sakaði.

Veginum und­ir Eyja­fjöll­um að Vík var lokað um tvöleytið í dag og frá Gígju­kvísl að Jök­uls­ár­lóni um fjögur. Þar með er lokað fyr­ir þá sem ætla að fara frá Kirkju­bæj­arklaustri að Höfn í Hornafirði. Þá var veginum um Mývatns- og Möðrudalsöræfi lokað klukkan sex.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert