Leita allra leiða til að koma til móts við Eflingu

Fulltrúar Eflingar og Reykjavíkurborgar hjá ríkissáttasemjara.
Fulltrúar Eflingar og Reykjavíkurborgar hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Reykjavíkurborg er að leita allra leiða til þess að koma á móts við sjónarmið Eflingar,“ segir Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, spurð út í nýlega tilkynningu frá stéttarfélaginu.

Þar kemur fram að samninganefnd Eflingar lýsi yfir vonbrigðum með viðbrögð borgarinnar við tilboði sem hún lagði fram á fundi ríkissáttasemjara í gær. Einnig kemur fram að borgin hafi „enn á ný slegið á sáttahönd láglaunafólks“.

„Við erum að leggja áherslu á að hækka lægstu launin sérstaklega. Við erum jafnframt að mæta þeirra sjónarmiðum um að það þurfi að skoða einstaka hópa. Það er það sem við ræddum sérstaklega í dag,“ segir Harpa og á þar við sáttafund sem var haldinn hjá ríkissáttasemjara í dag.

„Þau mátu það þannig að það væri ekki alveg að svara þeirra sjónarmiðum. Núna þarf hvor aðili um sig að fara yfir stöðuna eins og er. Við höfum verk að vinna og við viljum leita allra leiða til þess að ná sátt í kjaradeilunni, það er mjög mikilvægt,“ bætir Harpa við.

Ekki hefur verið boðaður annar fundur í kjaradeilunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert