Ökuníðingarnir 15 og 16 ára

mbl.is/​Hari

Þrír drengir fæddir 2003 og 2004 eru grunaðir um að hafa tekið bifreið traustataki á Rangárvöllum í gær og ekið á Hvolsvöll þar sem þeir eru grunaðir um að hafa hnuplað áfengi á veitingastað.

Þeir virtu ekki stöðvunarmerki lögreglu þegar til stóð að hafa afskipti af þeim og óku sem leið lá vestur eftir þjóðvegi 1 í átt að Selfossi þar sem akstur þeirra var stöðvaður með þvi að leggja naglamottu yfir veginn.  

Miklar ráðstafanir voru gerðar meðan á þessu stóð og var klippubíll frá Brunavörnum Árnessýslu og sjúkrabifreiðar frá HSU í viðbragðsstöðu við akstursleið drengjanna ef slys yrðu á fólki en töluverð umferð var um Suðurlandsveg á þessum tíma.

Ætluðu að forða sér á hlaupum

Naglamottur eru búnar rörnöglum sem verða eftir í dekkjum bifreiða sem yfir þær aka þannig að loft sígur rólega úr hjólbörðunum og var bifreið drengjanna á fjórum loftlausum skömmu eftir að henni var beygt inn á Langholt á Selfossi og þar á bak við húsnæði MAST. Þeir voru handteknir er þeir hugðust forða sér á hlaupum af vettvangi.

Að lokinni upplýsingagjöf og töku blóðsýnis úr ökumanni voru drengirnir vistaðir á viðeigandi stofnun vegna aldurs þeirra.

Teknir á 146-150 km hraða

Síðustu tvo daga hafa 34 aðrir ökumenn verið kærðir fyrir að aka of hratt á Suðurlandi og þrír þeirra mælst á 146, 148 og 150 km/klst. hraða en aðrir á bilinu frá 110 til 135 km/klst. hraða. Flestir þessara ökumanna eru á ferðinni í Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslum eða 24, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert