Hópur ungmenna réðst á fjórtán ára dreng við biðstöð Strætó í Hamraborg í Kópavogi í síðustu viku. Spörkuðu þeir í hann og lömdu.
Myndskeið af árásinni var tekið upp og birt á samfélagsmiðlum, að því er RÚV greindi frá í kvöldfréttatíma sínum, þar sem myndskeiðið var sýnt.
Fjölmargir voru viðstaddir árásina en svo virðist sem enginn hafi skakkað leikinn.
Ekki liggur fyrir hvað árásarmönnunum gekk til.
Ráðist var á sama dreng í Grafarvogi í fyrra af hópi ungmenna og voru einhverjir þeirra vopnaðir hnúajárnum.
Að sögn föður drengsins er hann að jafna sig. Hann glímir við höfuðverk og uppköst. Faðurinn telur mögulegt að útlendingaandúð liggi að baki árásinni en sonur hans er af erlendum uppruna. Hann bætir við að árásarmennirnir séu 15 til 17 ára.