Samspil jafnréttis- og umhverfismála í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er á meðal þess efnis sem verður rætt á Jafnréttisþingi sem hefst í Hörpu klukkan 10 í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnar þingið og ræðir um skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála á árunum 2018 – 2019.
Þingið átti að hefjast klukkan 10 en vegna mótmæla stéttarfélagsins Eflingar tafðist setningin. Talsverður hópur fólks var mættur með mótmælaspjöld þar sem vakin var athygli á virðingarleysi samfélagsins gagnvart umönnunarstörfum og lágum launum kvennastétta.
Aðalfyrirlesari verður Hildur Knútsdóttir rithöfundur sem í erindi sínu mun fjalla um hvernig kynjamisrétti í samfélögum hefur aukið loftslagsvandann og varpar upp þeirri spurningu hvort vandinn verði yfir höfuð leystur án jöfnuðar. Í kjölfarið verða pallborðsumræður.
Á þinginu verður einnig fjallað um átakaorðræðu í loftslags- og jafnréttisumræðu, en baráttan gegn loftslagsvandanum hefur að miklu leyti verið leidd af ungu fólki. Rótgróið kynjamisrétti kristallast í viðbrögðum við þeirri baráttu en afneitun á loftslagsvandanum virðist höfða meira til karla en kvenna. Að erindum loknum verða pallborðsumræður.
Nú þegar hafa ríflega 300 manns skráð sig. Sjá nánar á jafnretti2020.is.
Hér má fylgjast með ráðstefnunni í beinu streymi: