Orð Dags „blaut tuska“ í andlit Eflingarfólks

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður mæta …
Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður mæta til samningafundar hjá ríkissáttasemjara í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar segir Dag B. Eggertsson borgarstjóra hafa leikið sér með tölur í Kastljósi í gær, er hann nefndi dæmi um launahækkanir sem borgin hefði boðið fram til ófaglærðra starfsmanna á leikskólum borgarinnar.

Viðar var spurður að því í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun hvort tölurnar sem Dagur nefndi hefðu ekki verið réttar.

„Þær eru réttar að því leyti að þarna inni í þessum hækkunum eru þessar ágætu krónutöluhækkanir sem þegar er sátt um að gera á grundvelli lífskjarasamningsins eða að fyrirmynd hans. Þær hækkanir eru 90.000 krónur á samningstímabilinu, reyndar löngu samningstímabili, 3-4 ár að lengd, en það hvernig borgarstjóri fær út þessar tölur fyrir ófaglærða starfsmanninn sýnist mér byggjast á því að nefna mjög lága tölu sem fyrri viðmiðunarupphæðina og telja ekki inn í hana ákveðnar sérgreiðslur sem nú eru þegar til staðar hjá þeim hópum en telja þær svo inn í þegar hann talar um seinni töluna,“ sagði Viðar.

Borgarstjóri sagði í Kastljósi í gær að lægstu grunnlaunin á leikskólunum væru í dag um 310 þúsund og borgin væri að bjóða Eflingu að þau grunnlaun færu upp í 420 þúsund á samningstímanum. Þá lagði borgarstjóri mikla og ítrekaða áherslu á að þessu til viðbótar kæmu álagstengdar greiðslur sem hefðu verið til staðar frá því hann settist í stól borgarstjóra. Með þeim yrðu lægstu laun ófaglærðra starfsmanna, jafnvel ungmenna sem væru að safna sér fyrir heimsreisu, 460 þúsund krónur fyrir dagvinnu.

Sakaði borgarstjóra um ábyrgðarlaust tal

Viðar sagði þessi orð borgarstjóra hafa verið eins og „blauta tusku“ framan í Eflingarfólk og hafi ekki verið til þess fallin að liðka fyrir lausn deilunnar.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/​Hari

„Mig langar aðeins að koma inn á það hversu ótrúlegt mér finnst það að borgarstjóri hafi, á þessum viðkvæma tímapunkti í þessari deilu, þegar okkar fólk er búið að stíga fram ítrekað og hvað eftir annað og tala um sín kjör og sitt líf og hvernig sé að lifa á þessum launum, komi í Kastljósviðtal til þess að lýsa því yfir að hann telji að þetta starfsfólk sem um ræðir séu einhverjir háskólanemar að safna sér fyrir heimsreisum.

Þetta er blaut tuska framan í okkar fólk. Við erum hér að tala um fullorðnar manneskjur af holdi og blóði sem þurfa af lifa af þessum launum og ekki bara að halda sjálfum sér uppi heldur oft og tíðum líka börnum og fjölskyldu, hér á dýrasta landssvæði dýrasta lands í heimi,“ sagði Viðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert