Samkomulag Haralds kostar ríkið 360 milljónir

Meðaltalshækkun fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu umræddra starfsmanna í krónum talið …
Meðaltalshækkun fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu umræddra starfsmanna í krónum talið var því um 314 þús. kr. og hlutfallsleg hækkun nam um 48%. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýtt launasamkomulag sem Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, gerði við yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjóna í ágúst á síðasta ári kostar ríkissjóð 360 milljónir. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins.

Samkomulagið náði til tveggja yfirlögregluþjóna og sjö aðstoðaryfirlögregluþjóna. Einn yfirlögregluþjónn og einn aðstoðaryfirlögregluþjónn eru áfram með föst mánaðarlaun fyrir dagvinnu.

Samkomulag þetta var gagnrýnt og gerði formaður Lögreglustjórafélagsins alvarlegar athugasemdir við það og benti dómsmálaráðherra að þetta þýddi að yfirlögregluþjónar og aðstoðaryfirlögregluþjónar yrðu með hærri laun en sjö af níu lögreglustjórum landsins.

Í svari fjármálaráðherra segir að allir forstöðumenn stofnana ríkisins fari með fyrirsvar um réttindi og skyldur starfsmanna sinna og hafi því heimild til að gera breytingar á samsetningu heildarlauna starfsmanna í samræmi við kjara- og stofnanasamninga. 

Í svarinu segir að meðaltal fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna hjá ríkislögreglustjóra hafi farið úr um 672 þúsundum króna í um 986 þúsundir króna vegna samkomulags ríkislögreglustjóra.

Meðaltalshækkun fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu umræddra starfsmanna í krónum talið var því um 314 þús. kr. og hlutfallsleg hækkun nam um 48%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert