Mögulegar úrbætur til að bæta umferðaröryggi við Hörgárbraut á Akureyri eru til skoðunar hjá Akureyrarbæ í samráði við Vegagerðina.
Gert er ráð fyrir að aðilar máls, fulltrúar frá skipulagsráði, umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar og Vegagerðarinnar, hittist á fundi í næstu viku og fari yfir málið. Miklar umræður hafa verið um þjóðveg 1 um Hörgárbraut milli Undirhlíðar og Borgarbrautar, en þar hafa verið tíð umferðaróhöpp og alvarleg slys á óvörðum vegfarendum.
Íbúar í Hlíða- og Holtahverfi komu saman á fundi á þriðjudagskvöld og ræddu málið. Samþykkt var ályktun þar sem skorað var á Akureyrarbæ og Vegagerðina að grípa til aðgerða tafarlaust til að auka öryggi vegfarenda á þjóðvegi 1 um Hörgárbraut. Meðal annars vildi íbúafundurinn að strax yrði ráðist í merkingarátak um hámarkshraða og umferð skólabarna.
Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar, segir engar ákvarðanir liggja fyrir á þessari stundu, en farið verði yfir málið með þeim sem það varðar á fundi í næstu viku. „Þetta er flókið verkefni sem þarf ítarlega skoðun og er verið að skoða ýmsa möguleika sem koma til greina til að auka umferðaröryggi á þessu svæði,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.