Garðheimar bíða eftir svari frá borginni

Myndin sýnir svæði þar sem íbúðabyggð á að rísa. Í …
Myndin sýnir svæði þar sem íbúðabyggð á að rísa. Í baksýn eru Garðheimar og Vínbúðin sem koma til með að víkja fyrir byggð. mbl.is/Golli

Garðheimar hafa átt í viðræðum við Reykjavíkurborg um að flytja starfsemi sína á þróunarsvæðið Stekkjarbakka Þ73 en þar á að byggja gróðurhvelfingu. Ekkert svar hefur fengist frá borginni, þremur og hálfu ári eftir að sótt var formlega um lóðina.

„Við erum að leita okkur að lóð og erum í viðræðum við Reykjavíkurborg, ekki bara um þessa lóð en það hefur gengið hægt. Ég er ekki bjartsýn á að þetta verði okkar framtíðarstaðsetning,“ segir Kristín Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri Garðheima.

Fyrirtækið hefur einnig átt í viðræðum við borgina um tvær til þrjár aðrar lóðir fyrir starfsemina, auk þess sem það hefur rætt við önnur bæjarfélög og einkaaðila sem eru með lóðir í öðrum bæjarfélögum.

Stekkjarbakki Þ73 þar sem Reykjavíkurborg ætlar að fara í uppbyggingu.
Stekkjarbakki Þ73 þar sem Reykjavíkurborg ætlar að fara í uppbyggingu. mbl.is/Árni Sæberg

„Runnin út á tíma“

Lóðin á Stekkjarbakka Þ73 er sú eina sem Garðheimar hafa sótt formlega um og hefur fyrirtækið kynnt hugmyndir sínar fyrir starfsmönnum Reykjavíkurborgar og skipulagsráði.

Hagar, sem á lóðina sem Garðheimar standa á núna, fyrirhuga miklar framkvæmdir þar og rennur leigusamningur fyrirtækisins út eftir rúmt ár. „Þetta er búið að taka svo langan tíma að við erum svolítið runnin út á tíma,“ segir Kristín Helga um lóðina sem þau sóttu um.

Í umsókninni var reiknað með um 4.500 til 5.000 fermetra grunnfleti byggingarinnar, sem er um 1.000 fermetrum stærra en grunnflötur núverandi byggingar. Lóðin er aftur á móti jafnstór og sú sem þau eru á í dag. Lager Garðheima er staðsettur í Kópavogi en í plönunum kemur fram að hann verði fluttur undir bygginguna. Einnig stendur til að hafa veitingastaðinn þannig að fólk gæti setið úti.

Maður kaupir blóm í Garðheimum
Maður kaupir blóm í Garðheimum mbl.is/Styrmir Kári

Engin loforð um lóð

Hagar ætla að byggja 720 íbúðir og Bónusverslun á svæðinu þar sem Garðheimar standa núna. Að sögn Kristínar Helgu er deiluskipulagsvinna vegna þess ekki hafin, að minnsta kosti síðast þegar hún vissi. Það ferli gangi því einnig hægt fyrir sig.

Kristín Helga tekur fram að engin leynd hafi verið yfir því að Garðheimar hafi sótt um lóðina á Stekkjarbakka Þ73 því plönin hafi verið hangandi uppi í versluninni síðan í apríl í fyrra. „Þeir sem eru að safna undirskriftum láta eins og við séum komin með loforð um lóð, sem er fjarri lagi. Það er enginn fótur fyrir því,“ greinir hún frá. 

Garðheimar opnuðu í núverandi mynd við Stekkjarbakka 6 árið 1999 en rúmlega 60 manns starfa hjá fyrirtækinu.

Svæðið þar sem Garðheimar standa á núna.
Svæðið þar sem Garðheimar standa á núna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert