Kýldi barn í andlitið á Snorrabraut

Árásin var tilefnislaus, en hvorki móðir drengsins, sem sat við …
Árásin var tilefnislaus, en hvorki móðir drengsins, sem sat við stýrið né drengurinn sjálfur þekktu geranda. mbl.is/Þorsteinn

Karlmaður um þrítugt var í Landsrétti í dag dæmdur í fimm mánaða fangelsi vegna fjögurra sem hann framdi á árunum 2017 og 2018, meðal annars fyrir að ráðast í annarlegu ástandi, að fjögurra ára dreng sem sat í aftursæti kyrrstæðrar bifreiðar við gatnamót Snorrabrautar og Laugavegs og kýla hann í andlitið.

Árásin var tilefnislaus, en hvorki móðir drengsins, sem sat við stýrið né drengurinn sjálfur þekktu geranda, en nokkuð var fjallað um málið í fjölmiðlum á sínum tíma, enda ekki á hverjum degi sem börn eru kýld í andlitið þar sem þau sitja í bíl í miðborginni.

Maðurinn neitaði sök og bar fyrir sig minnisleysi sökum áfengis- og fíkniefnaneyslu, en sannað þótti að hann hefði verið þarna að verki.

Réðst líka á löggur

Hin brot mannsins sem hann hlaut dóm fyrir í dag lúta að tveimur brotum gegn valdstjórninni, en hann réðst gegn lögregluþjóni er hann var handtekinn þarna á Snorrabrautinni í nóvember 2017 og einnig á veitingastaðnum Moe’s við Jafnasel í janúar 2018.

Einnig var maðurinn dæmdur fyrir að vera með nokkur grömm af amfetamíni, kókaíni og kannabisefnum í fórum sínum er hann var handtekin eftir að hafa kýlt drenginn í andlitið á Snorrabrautinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka