„Ég vaknaði í nótt við fjúkandi sólhlífar og garðhúsgögn. Nú er ég að skemmta mér við að horfa á gervigras flettast hérna af íþróttavelli í rólegheitunum.“ Svona lýsir Ólafur Stephensen því að vera staddur á paradísareyjunni Tenerife þessa stundina en sandstormur ríður nú yfir Kanaríeyjar.
„Ástandið er svolítið svona eins og þegar það er appelsínugul viðvörun í borginni. Menn halda sig inni fyrir.“
Ólafur er einn af þeim Íslendingum sem hefur þurft að lengja dvölina á Kanaríeyjum vegna veðurofsans en mörg hundruð flugferðum hefur verið aflýst síðasta sólarhringinn.
Aðspurður segist Ólafur hafa verið svo stálheppinn að hafa fengið gistingu á sama hóteli og hann hafði gist á áður, þegar fluginu, sem átti að fara heim til Íslands í morgun, var aflýst. Hann segist nú hafa náð að panta sér sæti með flugi sem fer heim á morgun en eigi svo eftir að sjá hvort sú áætlun gangi eftir.
Þá segir hann kíminn að heimamennirnir taki ástandinu með miklu jafnaðargeði, séu glaðir og kátir, þrátt fyrir að hafa verið að Ólafs mati sérkennilega illa undirbúnir miðað við að um sé að ræða sandstorm sem hafði verið spáð með góðum fyrirvara.
„Elstu menn segja mér að það hafi ekki sést svona slæmt ástand í tuttugu ár.“ Þetta segir Karl Rafnsson, fararstjóri ferðaskrifstofunnar Vita á Gran Canaria, í samtali við mbl.is um storminn en Karl útskýrir að um sé að ræða sandstorm sem kemur frá Sahara-eyðimörkinni. Fyrirbærið sé þekkt og kallað Calima þarna syðra en ekki þekkist mörg jafn svæsin dæmi og nú er um að ræða.
Karl ítrekar þó að ekki megi mála skrattann á vegginn, engin hætta stafi af sandstorminum. „Ef menn haga sér skynsamlega og halda sig inni við, og passa að drekka vatn.“
Spurður frekar um ástandið úti við segir hann að það sé lítið skyggni og „duft í loftinu“. Það sé þó alveg hægt að vera úti, en fólki sé ráðlagt að halda sig inni við.