Enn bið á flugi frá Tenerife

Ekki hefur verið hægt að fljúga frá Tenerife South-flugvellinum í morgun vegna sandstormsins sem þar hefur geisað frá því í gær. Vél Norwegian Air sem átti að fara í loftið klukkan 8 fer ekki á tilsettum tíma til Íslands. Eina flugið frá flugvellinum sem enn er skráð á áætlun næstu klukkutíma er flug til Las Palmas.

Samkvæmt upplýsingum frá Norwegian Air er nú áætlað að vélin lendi á Keflavíkurflugvelli klukkan 19:55 í stað 13:35. 

Samkvæmt frétt Sky News er byrjað að fljúga frá Gran Canaria, Lanzarote, La Palma og Tenerife North en samkvæmt tilkynningu frá flugmálayfirvöldum verður einhver töf á að hægt verði að fljúga frá Tenerife South-flugvellinum.

Flugsamgöngur á Kanaríeyjum lágu niðri í gær vegna sandstorms sem gekk yfir eyjarnar. Aflýsa þurfti hundruðum flugferða, þeirra á meðal ferðum Norwegian milli Keflavíkur og Tenerife, stærstu eyjar eyjaklasans. Sandurinn á upptök sín í Sahara-eyðimörkinni, en Tenerife er um 100 kílómetra undan ströndum Marokkó. Þótt slíkir stormar séu þekktir hefur ástandið ekki verið jafnslæmt í 20 ár, að sögn Karls Rafnssonar, fararstjóra ferðaskrifstofunnar Vita á Tenerife. Styrkur svifryks mældist í gær tífaldur á við það sem eðlilegt þykir og var skyggni afar slæmt. Þá náði vindhraði í hviðum allt að 33 metrum á sekúndu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert