„Það má segja að allir viðbragðsaðilar séu á tánum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi þegar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, spurði hana um viðbrögð við kórónuveirunni COVID-19.
Inga velti málinu upp vegna frétta af útbreiðslu veirunnar á norðurhluta Ítalíu.
Katrín sagði að málið hefði verið tekið fyrir á vettvangi þjóðaröryggisráðs, auk þess sem búið væri að tryggja aðskilda móttöku sjúklinga á Landspítalanum þannig að sérstakur inngangur sé fyrir þá sem hugsanlega gætu greinst með veiruna.
„Það er mjög mikil upplýsingamiðlun til farþega sem koma til landsins. Það er líka mikil upplýsingagjöf til almennings og atvinnulífs. Það er unnið að aðstöðu fyrir einangrun eða sóttkví einstaklinga sem ekki búa hér á landi, til að það sé tryggt,“ sagði Katrín.
Inga sagði í sinni fyrirspurn að málið væri dauðans alvara og á Ítalíu væri smit að springa út. „Veiran er komin til Evrópu, það er nokkuð ljóst,“ sagði Inga.
„Nú hefur ágætur sóttvarnalæknir komið fram í Kastljósþætti tvívegis og tjáð sig þar um að það sé ekki spurningin um hvort heldur hvenær þessi veira komi til okkar, því miður,“ sagði Inga og spurði hvort við ættum ekki að loka landamærum.
„Ég velti fyrir mér hvernig í ósköpunum við eigum að vita hvort við erum smituð og eigum að hafa samband við einhvern. Það er þó a.m.k. vitað að við getum gengið með þessa veiru og verið smitandi í allt að tvær vikur án þess að finna fyrir einkennum. Fyrirspurnin kemur ekki bara í kjölfarið á þessum skelfilegu fréttum sem bárust frá Norður-Ítalíu heldur bara af því að fara í IKEA í gær, bara af því að vera innan um þúsundir manna og um leið og einhver hnerrar verður maður var við að fólk hleypur í allar áttir,“ sagði Inga.
Hún spurði hvernig fólk ætti mögulega að geta haft samband við einhvern og sagst ef til vill vera með eitthvað. „Hvernig eigum við að grípa til forvarna gagnvart þessu þegar við erum hér að taka inn að lágmarki 30.000 ferðamenn á viku? Við erum að mínu mati rosalega berskjölduð. Mig langaði að vita hvað verið sé að gera til að sporna gegn því að þessi veira berist til landsins frekar en að vera með forvarnir þegar við vitum ekki hve umfangsmikið þetta verður þegar og ef það kemur.“
Katrín sagði það skipta máli að byggja á gagnreyndum aðferðum sem hafi virkað og gefist vel. Farið hafi verið yfir málin á vettvangi þjóðaröryggisráðs, fundum hennar með sóttvarnalækni sem og á ríkisstjórnarfundum.
„Þó að það hljómi heldur óspennandi að hvetja fólk til að þvo sér um hendurnar og vera ekki hóstandi í allar áttir í IKEA, eins og hæstvirtur þingmaður lýsir hér, þá verðum við að horfa til þess hvað hefur gefist vel í fyrri faröldrum sem hafa gengið yfir heimsbyggðina,“ sagði Katrín.
„Ég get fullvissað hæstvirtan þingmann og alla aðra hæstvirta þingmenn um að okkar fólk, hvort sem það er í almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, heilbrigðisstofnunum eða hjá sóttvarnalækni, er svo sannarlega í viðbragðsstöðu, tekur stöðuna tvisvar á dag um útbreiðslu veirunnar til þess að við getum sem best brugðist við því og reynt að hefta útbreiðslu hennar hér á landi.“