Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 0,7% milli desember og janúar og er það mesta hækkun vísitölunnar frá því í apríl í fyrra þegar lífskjarasamningarnir tóku gildi. Meginástæða hækkunarinnar nú er mat á áhrifum vinnutímastyttingar sem tók gildi m.a. hjá verslunar- og skrifstofufólki og starfsfólki fjármálafyrirtækja í upphafi ársins 2020. Þetta kemur fram í hagvísum Landsbanka Íslands.
Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 4,9%, sem er töluvert meiri ársbreyting en verið hefur síðustu mánuði. Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en var u.þ.b. 6% í upphafi ársins 2019.
„Taka ber fram að launavísitalan hefur verið lægri en ella síðustu mánuði þar sem mjög litlar launahækkanir hafa orðið á opinbera markaðnum, en þar hefur gengið illa að ná kjarasamningum.
Þrátt fyrir mun minni launabreytingar en á síðustu árum er kaupmáttur enn að aukast. Kaupmáttur launa var þannig 3,2% meiri nú í janúar en í janúar í fyrra. Árið í fyrra var níunda árið í röð sem kaupmáttur launa jókst frá fyrra ári. Kaupmáttur dróst saman árin 2008-2010 en hafði aukist á hverju ári í 13 ár þar á undan. Ætla má að kaupmáttur haldi áfram að aukast þar sem nær öll samtök á opinberum markaði eiga eftir að ganga frá kjarasamningum. Það er reyndar athyglisverð staða að kaupmáttur sé að aukast þegar hallar undan fæti í efnahagslífinu eins og staðan er um þessar mundir.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá nóvember 2018 til sama tíma 2019 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 4,8% á þessum tíma á meðan þau hækkuðu um 2,4% á þeim opinbera. Mæld launavísitala hækkaði um 4,2% á sama tíma.
Eins og verið hefur hafa laun tækna og sérmenntaðs fólks annars vegar og þjónustu-, sölu og afgreiðslufólks hins vegar hækkað mest milli ára, um 6% og 5,5%. Laun sérfræðinga hafa hins vegar hækkað langminnst, um 3,2% og næstminnst hafa laun stjórnenda hækkað, um 3,9%.
Sé litið til atvinnugreina hafa laun í verslun og viðgerðum hækkað mest milli ára, um 5%, og þar á eftir í framleiðslu, um 5,1%. Laun í veitustarfsemi og fjármálaþjónustu hækkuðu minnst á milli nóvember 2018 og 2019.
Síðastliðinn vetur var reiknað með töluverðri kólnun í efnahagslífinu og mikil óvissa ríkti um stöðuna á vinnumarkaðnum og afleiðingar kjarasamninga. Staðan í atvinnumálum á vinnumarkaðnum hefur versnað nokkuð með auknu atvinnuleysi og minni atvinnuþátttöku.
Hvað launahliðina varðar má segja að nokkuð vel hafi spilast úr stöðunni. Kaupmáttur heldur áfram að aukast þar sem verðbólga hefur verið lægri en launahækkanir á tímabilinu. Að því leyti má segja að þau markmið sem sett voru með lífskjarasamningunum hafi gengið nokkuð vel eftir.
Nú eru hins vegar blikur á lofti og tími vinnudeilna og átaka hafinn. Félagsmenn Eflingar hjá Reykjavíkurborg standa í harðri baráttu og 9. mars munu stórir hópar opinberra starfsmanna hefja verkfallsbaráttu ef ekki hefur samist fyrir þann tíma. Ekki verður enn séð hvernig öllum þessum málum verður siglt á lygnari sæ,“ segir enn fremur í hagvísum.