Á dögunum endurnýjuðu Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, og Adolf Berndsen, stjórnarformaður BioPol á Skagaströnd, samstarfssamning til næstu fimm ára.
Sjávarlíftæknisetrið BioPol, sem stofnað var á Skagaströnd 2007, hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum sem m.a. hafa miðað að því að kortleggja tækifæri til verðmætasköpunar í sjávarútvegi. Í dag starfa hjá félaginu átta sérfræðingar og komið hefur verið upp rannsóknaaðstöðu og vottuðu vinnslurými sem nýtist frumkvöðlum.
Ánægja hefur verið, segir í fréttatilkynningu, meðal forráðamanna og starfsmanna BioPol ehf. og HA með samstarfið. Í því ljósi hefur nú verið gerður samningur um áframhaldandi samstarf um rannsóknir og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, matvælafræði og tengdra sviða. Í því felst m.a. að skilgreina ný rannsóknaverkefni, en styrkleiki samstarfsins byggir á samlegð þekkingar. Samningurinn tilgreinir jafnframt að BioPol getur auglýst stöðu sérfræðings sem staðsettur verður á Skagaströnd, en staðan er tilkomin vegna vinnu Norðvesturnefndar sem starfaði fyrir forsætisráðuneytið á sínum tíma.