Embætti landlæknis hefur verið í góðu sambandi við fólkið sem er í sóttkví á hóteli í Tenerife eftir að gestur hótelsins greindist með COVID-19-veiruna í gær.
„Við höfum tekið stöðuna á þeim og hvað þau hafa verið að gera síðustu daga,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í samtali við mbl.is. Þá hefur embættið tryggt að fólkið fái allar helstu upplýsingar.
Íslendingarnir eru meðal eitt þúsund gesta hótelsins H10 Costa Adeje Palace á Tenerife sem nú eru í sóttkví. Sjömenningarnir eru á vegum Vitaferða en Kjartan getur ekki sagt til um hvort um eina fjölskyldu eða fleiri sér að ræða, hann hafi einungis upplýsingar um grófa mynd af samsetningu hópsins.
Sóttvarnalæknir hefur í dag safnað upplýsingum um hvort og þá hvaða einstaklingar hafa dvalið á hótelinu og eru nú komnir til landsins eða eru á leið heim en ekki er vitað til þess að fleiri Íslendingar hafi dvalið á hótelinu síðustu daga.
Gestirnir fengu miða undir hurðina á herbergjum sínum í morgun þar sem þeim var gerð grein fyrir því að af heilbrigðisástæðum hefði hótelinu verið lokað. Á miðanum stóð að fólk ætti að halda kyrru fyrir í herbergjum sínum þar til frekari upplýsingar fengjust frá heilbrigðisyfirvöldum. Þeim ströngu skilyrðum var síðar aflétt og hafa gestir hótelsins getað ferðast um hótelið að vild. Allir gestirnir sæta hins vegar sóttkví og mega ekki yfirgefa hótelið. Lögregla stendur vörð við inngang hótelsins og gætir þess að enginn fari þar út eða inn.
Íslensk stjórnvöld hafa uppi umtalsverðan viðbúnað vegna kórónuveirunnar COVID-19 og borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur opnað sérstakan gagnagrunn fyrir Íslendinga erlendis sem óska eftir að vera skráðir hjá utanríkisráðuneytinu og upplýstir um ferðaráð vegna COVID-19-veirunnar meðan á dvöl þeirra stendur.
Kjartan segir að embætti landlæknis muni fylgjast náið með stöðunni á Tenerife næstu daga og Íslendingunum sem eru í sóttkví. „En okkar aðkoma að því er fyrst og fremst sú að hvetja fólk til að fylgja leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda á staðnum.“