Íslendingar hugsanlega í sóttkví við heimkomuna

Íslendingar á leið frá Tenerife gætu þurft að fara í …
Íslendingar á leið frá Tenerife gætu þurft að fara í sóttkví við heimkomuna.

Það gæti farið að svo að Íslendingar sem eru á leið heim frá Tenerife næstu daga þurfi að sæta 14 daga sóttkví við komuna til landsins, en staðfest smit af kórónuveirunni greindist á Tenerife í gær. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Tvær flugvélar eru á áætlun frá Tenerife-South flugvellinum í dag til Keflavíkur, önnur frá Norwegian og hin frá Icelandair. Þá er ein vél frá Icelandair á áætlun á morgun.

Rögnvaldur segir borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins vera að skoða ástandið á Tenerife en einnig er verið að skoða það hér á landi hvort ástæða sé til að gera einhverjar ráðstafanir, en það ráðist af aðstæðum úti. „Eins og staðan er núna þá eru það spænsk stjórnvöld sem bera ábyrgð á boltanum en við erum að skoða okkar megin hvort það er ástæða til að breyta einhverju eða koma með tilmæli til fólks sem er að koma frá Tenerife.“

Hann bendir á að fréttirnar séu mjög nýtilkomnar og því sé verið að fara yfir stöðuna á öllum vígstöðvum. Hann á ekki von á öðru en að flug haldi áætlun nema spænsk yfirvöld taki ákvörðun um annað. „Við myndum ekki stoppa fólk í að koma heim.“ Hvað hugsanlega sóttkví varðar segir hann verið að skoða umfangið úti og ákvörðun verði tekin út frá því.

Smit greindist í gær í ítölskum karlmanni sem hafði dvalið á H10 Costa Adeje Palace hótelinu á Adeje ströndinni. Staðfest hefur verið að sjö Íslendingar eru á hótelinu en allir gestir þess sæta nú sóttkví. Lögregla stendur vörð við hótelið til að tryggja að þangað fari enginn inn eða komi út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka