Vandinn skapist ekki aftur á bráðamóttöku

Tillögurnar voru kynntar á blaðamannafundi í anddyri Landspítalans í Fossvogi …
Tillögurnar voru kynntar á blaðamannafundi í anddyri Landspítalans í Fossvogi eftir hádegi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Auka á möguleika sjúkraflutningamanna til að meðhöndla sjúklinga í heimahúsum, sérhæfð heimaþjónusta við veika aldraða verður tekin upp eigi síðar en 1. júní 2020 og líknardeild verður opnuð á Landspítala fyrir 1. september sama ár.

Þetta er meðal tillagna átakshóps sem skipaður var til að finna lausnir á brýnum vanda bráðamóttökunnar, sem kynntar voru á blaðamannafundi í anddyri Landspítalans í Fossvogi eftir hádegi í dag, og hrint verður í framkvæmd á allra næstu vikum og mánuðum.

Átakshópur um vanda bráðamóttökunnar var skipaður um miðjan janúar í kjölfar minnisblaðs landlæknis um stöðu bráðamóttökunnar, en átakshópurinn hafði fjórar vikur til að finna lausnir á brýnum vanda bráðamóttökunnar og hrinda þeim í framkvæmd og í dag kynntu Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, Alma D. Möller landlæknir og Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins, viðfangsefni átakshópsins, niðurstöður og tillögur.

Sagðist Svandís binda vonir við að tillögurnar myndu breyta þeirri …
Sagðist Svandís binda vonir við að tillögurnar myndu breyta þeirri erfiðu stöðu sem búið hefur verið við á bráðamóttökunni og að allt kapp yrði lagt á að hrinda þeim í framkvæmd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tillögurnar eru alls ellefu talsins og er raðað í forgangsröð, en fyrsta og önnur tillaga miða að því að forstjóri og framkvæmdastjórn Landspítala taki þegar í stað stefnumarkandi ákvörðun um að sjúklingar á bráðamóttöku spítalans sem þurfi innlögn flytjist á viðeigandi deildir sem fyrst og taki ákvörðun um gerð verk- og tímaáætlun, þ.m.t. áhættumat, vegna hinnar stefnumarkandi ákvörðunar. 

Þá gerir þriðja tillagan ráð fyrir því að forstjóri og framkvæmdastjórn spítalans taki ákvörðun um að gerð verði verk- og tímaáætlun til langs tíma sem hafi það að markmiði að vandinn skapist ekki aftur á bráðamóttöku Landspítalans.

Tillögurnar sem þar koma á eftir miða að því að Landspítali stofni þróunarteymi um það hvernig þjónustu við aldraða sé best komið fyrir í framtíðinni, að sérhæfð heimaþjónusta við aldraða verði tekin upp þegar í stað, auk þess sem hafist verði handa við endurskipulagningu á færni- og heilsumati. Þá stendur til að auka líknarþjónustu við aldraða með opnun líknardeildar á Landspítala, auk þess sem kannað verður hvort þörf sé á auknum læknisfræðilegum stuðningi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við heimahjúkrun í Reykjavík.

Netspjall og símsvörun á vegum Heilsuveru

Þá er lagt til að sjúkraflutningamenn hafi aukna möguleika til að meðhöndla sjúklinga í heimahúsum og að samningsmarkmið heilbrigðisráðuneytisins fari fyrir samning Sjúkratrygginga Íslands um sjúkraflutninga fyrir 1. júlí 2020.

Loks á að styrkja vegvísun í heilbrigðiskerfinu, annars vegar með því að stofna tilvísana- og ráðgjafamiðstöð Landspítala fyrir 1. september 2020, og annars vegar að láta Heilsuveru sjá um netspjall og símsvörun í símanúmerinu 1700.

Aðspurð sagði Svandís að hægt væri að ráðast í allar þessar aðgerðir með þeim fjárheimildum sem eru fyrir hendi.

Skýrsla átakshóps um bráðamóttöku Landspítalans

Svandís og Alma voru meðal þeirra sem kynntuviðfangsefni átakshópsins, niðurstöður …
Svandís og Alma voru meðal þeirra sem kynntuviðfangsefni átakshópsins, niðurstöður og tillögur. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert