Helga Melkorka Óttarsdóttir, lögmaður Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur, segir að dómur Mannréttindadómstólsins í morgun sé staðfesting á því sem lagt hafi verið upp með í málaflutningnum fyrir MDE. Hins vegar liggi ekki fyrir hver áhrif dómsins verði í tengslum við málflutning um endurupptöku þess fyrir Hæstarétti sem fer fram í næsta mánuði. Helga segir dóminn þó væntanlega sterkt innlegg í það mál.
„Það var fallist á hennar málatilbúnað og þetta er staðfesting á að dómurinn var ekki óhlutdrægur,“ segir Helga í samtali við mbl.is og bætir við að aðalatriðið hafi verið að vanhæfi dómsins hafi verið staðfest. „Hvort það var einn, tveir eða þrír dómarar, það skiptir ekki öllu máli, vanhæfið var staðfest,“ segir hún.
Eins og mbl.is greindi frá í morgun var niðurstaða dómstólsins að Hæstiréttur hafi brotið á Elínu, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Landsbankans, við málsmeðferð þegar hún var dæmd í eins og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik og þátttöku í markaðsmisnotkun í hinu svokallað Ímon-máli.
Elín höfðaði mál gegn ríkinu fyrir MDE á þeim grundvelli að hlutabréfaeign þriggja dómara við Hæstarétt Íslands í íslensku viðskiptabönkunum fyrir hrun hefði haft áhrif á niðurstöðu þeirra í málinu. Málsmeðferðin í Hæstarétti hefði þannig verið á skjön við bæði íslensku stjórnarskrána og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Í dómi MDE er fallist á að hlutabréfaeign eins dómara málsins, Viðars Más Matthíassonar, hafi verið það mikil að hægt sé að taka undir með Elínu að seta hans í dóminum valdi hlutdrægni við málsmeðferð Hæstaréttar. Eru henni því dæmdar skaðabætur upp á 12 þúsund evrur auk 5 þúsund evra vegna málskostnaðar. Þó er tekið fram í dómi MDE að ekki sé hægt að fullyrða um áhrif Viðars á niðurstöðu Hæstaréttar. Þetta valdi því hins vegar að draga megi hlutdrægni dómsins í efa og telst það brot á sjöttu grein mannréttindasáttmálans.
Endurupptökunefnd hafði áður samþykkt endurupptöku málsins á svipuðum forsendum og verður málið tekið fyrir í Hæstarétti 11. Mars. Helga segir að þá verði málflutningur um hvort skilyrði séu fyrir hendi fyrir endurupptöku. Málið verði ekki tekið fyrir efnislega heldur einungis þessi formþáttur.
Varðandi framhald málsins, þá mun það ráðast af niðurstöðu Hæstaréttar og þá kemur í ljós hvort það verði tekið til efnislegrar meðferðar eða ekki á ný. Þá er ekki ljóst fyrir hvaða dómstigi það yrði gert verði ákveðið að endurupptaka málið. Þannig gæti Hæstiréttur sent málið aftur í hérað þannig að það þurfi að dæma það allt upp aftur. Hins vegar gæti Hæstiréttur einnig ákveðið að rétturinn muni sjálfur fara í endurmat á munnlegum málflutningi án þess að vitni komi fyrir dóminn og dæmt aftur í málinu.
Hver sem sú niðurstaða verður segir Helga að gengið hafi verið út frá að ekki sé langt bil þegar kemur að því að meta hæfi dómara samkvæmt íslenskum lögum og samkvæmt mannréttindasáttmálunum. Segist hún ætla að þetta séu áþekk viðmið og því geti dómur MDE í dag verið sterkt innlegg inn í málflutninginn fyrir Hæstarétti í næsta mánuði og ákvörðun dómsins.