Andlát: Ragnar Bjarnason

Raggi Bjarna var 85 ára þegar hann lést.
Raggi Bjarna var 85 ára þegar hann lést. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnar Bjarnason, einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar, er látinn 85 ára að aldri. Hann lést í gærkvöldi á líknardeild Landspítalans.

Ragnar fæddist í Reykjavík árið 1934 og var sonur hjónanna Bjarna Einars Böðvarssonar, hljómsveitarstjóra og stofnanda og fyrsta formanns FÍH, og Láru Ingibjargar Magnúsdóttur, sem var ein fyrsta dægurlagasöngkona landsins og söng í kórum í 40 ár.

Eftirlifandi eiginkona Ragnars er Helle Birthe Bjarnason. Börn Ragnars eru Bjarni Ómar Ragnarsson, Kristjana Ragnarsdóttir og Henry Lárus Ragnarsson.

Ferill:

Þrátt fyrir að Ragnar, eða Raggi Bjarna, eins og hann var alltaf kallaður, hafi verið frægastur fyrir sönginn og sungið fram á síðasta dag, þá hóf hann feril sinn sem trommari á unglingsaldri sem spilaði bæði með RSD-Tríóinu og hljómsveit föður síns. Hann trommaði einnig með Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar 1952, með harmonikuleikaranum Rúti Hannessyni, og með Hljómsveit Árna Ísleifssonar á Röðli 1954.

Ragnar söng fyrst opinberlega með Sigurði Ólafssyni og hljómsveit föður síns í Útvarpssal 1950, með tríói á Hótel KEA 1952-53, Hljómsveit Guðmundar R. Einarssonar 1953, gömludansahljómsveit Josefs Felzman í Tjarnarcafé 1954, dixieland-hljómsveitinni ,,Allir edrú“, Hljómsveit Svavars Gests 1955 og 1956, var fastur söngvari KK-sextettsins 1956-59, með Hljómsveit Björns R. Einarssonar á Hótel Borg, var fastur söngvari með Hljómsveit Svavars Gests 1960-63 og starfaði á Norðurlöndunum með Kristni Vilhelmssyni og sænskum hljóðfæraleikurum.

Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar skemmti á héraðsmótum Sjálfstæðisflokksins á landsbyggðinni, 1966-71. Hann fékk Ómar Ragnarsson og fleiri í lið með sér, en þeir Ómar stofnuðu síðan Sumargleðina sem fór á hverju sumri um landið við feykilegar vinsældir 1972-86. Frá 1980 var Sumargleðin einnig haldin í Reykjavík á haustin og stundum fram í desember, fyrst á Sögu og síðan á Broadway. Helstu kappar hennar voru Ragnar og hljómsveit, Ómar Ragnarsson, Bessi Bjarnason, Karl Guðmundsson eftirherma, Magnús Ólafsson, söngkonurnar Þuríður Sigurðardóttir og Sigrún Hjálmtýsdóttir, Halli og Laddi, Hermann Gunnarsson og Þorgeir Ástvaldsson.

Ragnar ók leigubíl um langt árabil, starfrækti bílaleigu 1995-2004, var bílasali hjá Sveini Egilssyni og Fiatumboðinu, rak um tíma söluturn í Breiðholtinu, var dagskrárgerðarmaður á Effemm 95,7, og síðar á Aðalstöðinni, var með Þórskabarett í Þórskaffi, söng með Smellum í Danshúsinu Glæsibæ og söng við eigin píanóleik.

Sumargleðin kom aftur saman 1994 og hélt fjölda skemmtana á Hótel Íslandi. Þá kom Ragnar oft fram með Milljónamæringunum og tók upp lög með þeim: „Svo höfum við Þorgeir Ástvaldsson skemmt saman við ýmis tækifæri í tíu ár – og erum enn að – aldrei betri.“

Plötur:

Ragnar söng inn á sína fyrstu plötu 1954 og söng síðan inn á níu 78 snúninga plötur á vegum Sigríðar Helgadóttur, Tónika-útgáfunnar og Fálkans. Hann söng inn á fjölda lítilla platna á sjötta og sjöunda áratugnum, en gerði sína fyrstu langspilsplötu 1971 þar sem hann söng eigið lag við ljóð Steins Steinars, Barn. Hann hefur samið nokkur lög í gegnum tíðina en lítið haldið þeim á lofti. Hann stofnaði RB Hljómplötur 1999 og hefur gefið út þó nokkrar plötur síðan, s.s. Ragnar Bjarnason – Hin hliðin, 2001; Vertu ekki að horfa, 2004, afmælisútgáfu sem seldist í ríflega tíu þúsund eintökum; Með hangandi hendi, 2005; Vel sjóaður, 2006, Gleðileg jól með Ragga Bjarna, 2007, ný jólalög eftir Ragnar, Þorgeir Ástvaldsson og Gunnar Þórðarson, og Lögin sem ekki mega gleymast, 2008.

Í tilefni 80 ára afmælis Ragga Bjarna gaf Sena svo út þriggja diska albúm, Raggi Bjarna 80 ára. Þar er að finna 20 af vinsælum lögum Ragnars, 20 dúetta og 20 lög sem höfðu ekki komið út áður á geisladiskum.

Viðurkenningar:

Ragnar fékk sérstaka viðurkenningu Stjörnumessu DV og Vikunnar 1980 sem söngvari ársins í 30 ár; hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 1994; var sæmdur gullmerki FÍH 2004; var sæmdur fálkaorðunni 1.1. 2005, útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur 2007 og hlaut sérstaka viðurkenningu frá Breiðholtssamtökunum sem skemmtikraftur um árabil, 2007. Þá fékk Ragnar heiðurslaun listamanna, samkvæmt tillögu allsherjar- og menntamálnefndar Alþingis, árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert