Bangsapartý og símalaus skóli verðlaunuð

Elínrós Benediktsdóttir, skólastjóri Ölduselsskóla, og Erla Erlendsdóttir deildarstjóri tóku við …
Elínrós Benediktsdóttir, skólastjóri Ölduselsskóla, og Erla Erlendsdóttir deildarstjóri tóku við verðlaununum fyrir hönd skólans fyrir verkefnið Símalaus skóli. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Þrír grunnskólar fengu í dag hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir nýbreytni og gróskumikið fagstarf; Foldaskóli, Seljaskóli og Ölduselsskóli. Að auki fengu Ártúnsskóli, Breiðholtsskóli, Fellaskóli og Hólabrekkuskóli viðurkenningu fyrir metnaðarfull þróunarverkefni.

Hvatningarverðlaunin voru afhent á öskudagsráðstefnu grunnskólakennara í Hörpu í dag en hátt í sex hundruð kennarar voru þar mættir til að fræðast um og ræða loftslagsvandann, sjálfbærni, útinám og leiðir til að vinna með loftslagskvíða. 

Magnús Þ. Jónsson skólastjóri og Dröfn Vilhjálmsdóttir, bókasafnsfræðingur í Seljaskóla, …
Magnús Þ. Jónsson skólastjóri og Dröfn Vilhjálmsdóttir, bókasafnsfræðingur í Seljaskóla, tóku við hvatningaverðlaunum fyrir verkefnið Bangsa-gistipartý og Bókasjóður á skólabókasafninu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Ævintýraleikur í samræmi við námsmarkmið

Foldaskóli hlaut hvatningarverðlaun fyrir að skapa aðstæður fyrir nemendur sem eru virkir í tómstundastarfi til að spila ævintýraleikinn Dungeons and Dragons. Leikurinn fellur vel að námsmarkmiðum í íslensku og samfélagsfræði og eflir félagsfærni, leikræna tjáningu og samskiptahæfni út frá áhugahvöt og frumkvæði nemenda.  

Seljaskóli hlaut verðlaun fyrir verkefnið Bangsa-gistipartý og Bókaskjóður á skólabókasafninu. Dröfn Vilhjálmsdóttir bókasafnsfræðingur á heiðurinn af því skemmtilega verkefni en hún hefur farið óhefðbundnar leiðir að því að efla yndislestur. Yngri nemendum var boðið að koma með bangsana sína í gistipartý á skólasafninu þar sem bangsarnir upplifðu ýmislegt sem var skráð og myndað. Dröfn hefur einnig útbúið 40 veglegar bókaskjóður með bókum og fylgihlutum með það að markmiði að efla lestraráhuga og orðaforða nemenda.

Helga Pálsdóttir þroskaþjálfi og Kristrún Guðjónsdóttir skólastjóri tóku á móti …
Helga Pálsdóttir þroskaþjálfi og Kristrún Guðjónsdóttir skólastjóri tóku á móti hvatningaverðlaunum fyrir hönd Foldaskóla fyrir að skapa aðstæður fyrir nemendur sem eru virkir í tómstundastarfi til að spila ævintýraleikinn Dungeons and Dragons. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Fyrsti símalausi skólinn verðlaunaður

Ölduselsskóli fékk hvatningarverðlaun fyrir verkefnið Símalaus skóli, en hann er fyrsti skólinn í borginni sem náði því markmiði. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að allt skólasamfélagið hafi sameinast um að gera Ölduselsskóla að símalausum skóla og hafi nemendur verið virkjaðir í að finna áhugaverð og skemmtileg viðfangsefni í staðinn fyrir að vera í símunum í frímínútum.

Fjórir aðrir grunnskólar fengu sérstaka viðurkenningu; Ártúnsskóli fyrir verkefnið Útinám og umhverfisfræðsla og Breiðholtsskóli, Fellaskóli og Hólabrekkuskóli fyrir samstarfsverkefnið Allir brosa á sama tungumáli. 

Að þessu sinni bárust 20 tilnefningar til hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs og þykir fjöldi þeirra bera merki um þá miklu grósku sem er í skólastarfi í borginni.

Hólabrekkuskóli fékk minningarverðlaun Arthurs Morthens

Þá hlaut Hólabrekkuskóli Minningarverðlaun Arthurs Morthens sem veitt voru í fjórða skipti á ráðstefnunni. Verðlaunin hlaut skólinn fyrir heildaráætlun um stuðning við nemendur með sérþarfir.

Minningarverðlaunin eru viðurkenning fyrir störf í þágu stefnu um skóla án aðgreiningar, en Arthur Morthens helgaði starfsævi sína börnum sem áttu á brattann að sækja í skólakerfinu.

Minningarverðlaun Arthurs Morthens voru málverk eftir listamanninn Tolla sem ber nafnið Sögur úr djúpinu ásamt verðlaunaskjali. Hólmfríður Guðjónsdóttir skólastjóri í Hólabrekkuskóla tók við verðlaununum ásamt samstarfsfólki sínu.

Hólmfríður Guðjónsdóttir, skólastjóri í Hólabrekkuskóla, ásamt samstarfsfólki sínu og verðlaunagripnum …
Hólmfríður Guðjónsdóttir, skólastjóri í Hólabrekkuskóla, ásamt samstarfsfólki sínu og verðlaunagripnum eftir Tolla. Ljósmynd/Reykjavíkurborg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert