„Ég er kannski undrandi og jafnvel sjokkeruð á því að þetta hafi verið niðurstaðan eftir daginn í dag,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, eftir árangurslausan fund í kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar.
Ótímabundið verkfall Eflingarfélaga heldur áfram og óvíst hvenær næst verður fundað í deilunni.
Sólveig segir það hafa komið henni nokkuð á óvart að hafa setið á fundi í nokkrar klukkustundir og að hafa fengið tilboð sem var engin viðbót við útspil borgarinnar á fundi fyrir viku.
„Það má furða sig mjög á því hvað borgarstjóri var að tala um þegar hann talaði um sögulegt tilboð sem hann og samninganefndin væru að gera okkur,“ segir Sólveig Anna.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í viðtali í Kastljósi á RÚV í síðustu viku að tilboð Reykjavíkurborgar væri „mesta hækkun lægstu launa“ sem sést hefði. Því er Sólveig Anna ekki sammála:
„Við bíðum eftir því að sjá hvað hann var að meina.“
Sólveig Anna lítur svo á að fólkið sem situr gegnt henni við samningaborðið og þau sem fari með völdin í borginni geri sér ekki grein fyrir þeirri ábyrgð sem hvíli á þeim.
„Kannski ímyndar þetta fólk sér að nú eigi að þreyta okkur og á endanum kremji þau þessa baráttu okkar, þvingi upp á okkur einhverju sem við viljum ekki sjá. Kannski er það leikurinn sem þau eru að spila núna.“
Sólveig Anna segir að Eflingarfólk sé ekkert að þreytast þótt vissulega séu þau þreytt á árangurslausum samningafundum.
„Við erum þreytt á því að vera alltaf á sama stað. Baráttuvilji félagsmanna er enn mjög mikill og það er mjög sjokkerandi fyrir félagsmenn og okkur öll sem komum að þessu að hafa farið inn á þennan fund, með smá von í brjósti um að málin færu að mjakast og þurfa að ganga út enn eina ferðina með ekkert í höndunum.“