Ef þær vinnustöðvanir verða að veruleika sem nú eru í undirbúningi meðal aðildarfélaga BSRB og félagsmanna Eflingar, til viðbótar við yfirstandandi verkfall Eflingar hjá borginni, yrðu það viðtækustu verkföll hér á landi í 38 ár.
Er þá talinn sá fjöldi launþega sem mögulega mun taka þátt í verkföllunum, þótt algengara sé að telja fjölda tapaðra vinnudaga þegar áhrif verkfalla eru metin, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Árið 1982 tóku um 41 þúsund launþegar þátt í verkföllum á vinnumarkaðinum og hafa ekki svo margir farið í verkföll á sama árstíma síðan þá. Núna gætu mögulegar verkfallsaðgerðir náð til tæplega 20 þúsund launþega en aðeins ellefu dagar eru til stefnu þar til þær aðgerðir eiga að hefjast.
Ótímabundið verkfall félagsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg hefur staðið yfir í tíu daga en það nær til um 1.850 félagsmanna á 129 starfsstöðvum borgarinnar.
Atkvæðagreiðsla stendur nú yfir til hádegis á laugardaginn um verkföll um 270 félagsmanna Eflingar sem vinna hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi sem starfa við umönnun, gatnaviðhald og fleira. Verði það samþykkt hefst ótímabundin vinnustöðvun þeirra á hádegi mánudaginn 9. mars.
Kosning er einnig hafin á vegum Eflingar meðal rúmlega 240 félagsmanna félagsins um boðun samúðarverkfalls í 21 einkareknum skóla í Reykjavík, Garðabæ og Kópavogi.