Möguleiki á lokun landsins stöðugt í endurskoðun

Frá blaðamannafundi fyrr í dag vegna kórónuveirunnar.
Frá blaðamannafundi fyrr í dag vegna kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert

Möguleikinn á því að loka landinu vegna kórónuveirunnar COVID-19 er í stöðugri endurskoðun í samræmi við áhættumat á hverjum tíma en verkefnahópur ríkislögreglustjóra telur að íslensk stjórnvöld hafi heimildir til að loka landinu með vísan til almannaheilbrigðis.

„Í þeim efnum koma til skoðunar t.d. ákvæði laga um sóttvarnir, um loftferðir og ákvæði laga um útlendinga. Afar mikilvægt er þó að sóttvarnaviðbrögð séu í samræmi við áhættumat og vega þarf áhrif viðbragða á móti áhrifum farsóttarinnar. Ef landinu er lokað komast Íslendingar sem staddir eru erlendis ekki heim (nema undirbúinn verði sérstakur heimflutningur) og aðföng og útflutningur raskast,“ segir í samantekt á niðurstöðum hópsins. 

Hópurinn hefur kannað hvort og þá hvernig megi stemma stigu við komu ferðamanna frá áhættusvæðum en niðurstöður hópsins eru að það megi og í raun séu ýmsar leiðir færar til þess. 

Yfirvöld mælast til þess að fólk gæti vel að hreinlæti …
Yfirvöld mælast til þess að fólk gæti vel að hreinlæti til þess að forðast smit. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skimun á landamærum virðist ekki vera vænlegur möguleiki en „aðgerðir annarra ríkja sem hafa beitt skimunum við landamæraeftirlit í fyrri faröldrum og vegna COVID-19 hafa ekki borið árangur“.

Viðbrögð stjórnvalda vegna kórónuveirunnar miðast öll við fyrirmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC), sóttvarnalæknis og löggæsluyfirvalda hverju sinni.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur heimildir til að gefa fyrirmæli um ferðatakmarkanir fólks í samræmi við alþjóðaheilbrigðisreglugerðina til varnar útbreiðslu farsótta. Staðan er stöðugt endurmetin hér á landi frá degi til dags með hliðsjón af nýjustu upplýsingum,“ segir í samantekt hópsins.

Heimilt að vísa fólki frá og synja áritunum

Þar segir sömuleiðis að öflugustu aðgerðirnar sem hægt sé að grípa til vegna veirunnar séu að senda þá sem talið er að gætu verið smitaðir í sóttkví og eftir atvikum einangrun.

Aðrar aðgerðir sem hópurinn telur að yfirvöldum sé heimilt að grípa til eru afturkallanir eða synjanir á vegabréfsáritunum og frávísanir á landamærum vegna ógnar við almannaöryggi.

Hið fyrrnefnda „hefði lítil áhrif í ljósi þess að Ísland tekur þátt í sameiginlegri áritanastefnu ESB. Slík aðgerð myndi einungis hafa áhrif ef fleiri ríki myndu einnig synja um útgáfu áritana einstaklinga sem koma frá sýktum svæðum“.

Hið síðarnefnda er erfitt í framkvæmd en hópurinn telur erfitt að sjá að Ísland geti framkvæmt slíkt án þess að það sé hluti af sameiginlegum aðgerðum Schengen-ríkjanna.

Hópurinn skoðaði einnig möguleikann á því að vísa fólki frá áður en það stigi um borð í loftfar erlendis en slík heimild er ekki til staðar að mati hópsins, „enda fer landamæraeftirlit fram á viðurkenndum landamærastöðvum á íslensku yfirráðasvæði“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka