Sex klukkustunda svefn ungmenna

Mynd af rannsóknarteyminu. Frá vinstri: Soffía Hrafnkelsdóttir, Sigríður Lára Guðmundsdóttir, …
Mynd af rannsóknarteyminu. Frá vinstri: Soffía Hrafnkelsdóttir, Sigríður Lára Guðmundsdóttir, Erlingur Jóhannsson, Vaka Rögnvaldsdóttir og Rúna Sif Stefánsdóttir. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Ungmenni á aldrinum 15 til 17 ára sofa að meðaltali aðeins sex klukkustundir á sólarhring sem er tveimur klukkustundum minna en aldurshópurinn þarf samkvæmt alþjóðlegum ráðleggingum.

Þetta er meðal niðurstaðna í rannsókn á heilsuhegðun ungra Íslendinga sem Erlingur Jóhannsson, prófessor við menntavísindavið Háskóla Íslands, vann ásamt samstarfsfólki. 10% ungmenna sofa átta til tíu klukkustundir á sólarhring.

Í rannsókninni kemur enn fremur fram að nemendur í bekkjakerfi í framhaldsskólum sofi að meðaltali 25 mínútum skemur en nemendur í fjölbrautaskólakerfi. Mögulegar ástæður segir Erlingur meiri sveigjanleika í fjölbrautakerfinu. 

Það er oft freistandi að slökkva á vekjaraklukkunni þegar hún …
Það er oft freistandi að slökkva á vekjaraklukkunni þegar hún hringir að morgni dags. Getty images

„Unglingarnir fara að sofa á svipuðum tíma á kvöldin en nemar í fjölbraut sofa lengur vegna meiri sveigjanleika,“ segir Erlingur.

Hann segir að stundatöflur nemenda hafi ekki verið skoðaðar en bekkjaskólarnir byrji á bilinu 08:10 til 08:30. „Nemendur í fjölbrautakerfinu sváfu jafn lengi og þegar þeir voru í grunnskóla á meðan krakkar í bekkjaskólum sváfu minna.“

Erlingur segir að það sé augljóst að sex tíma svefn á sólarhring hjá unglingum sé allt of lítið. „Þetta er stórt heilsufarsvandamál,“ segir hann og bendir á að þeir sem sofi of lítið séu oft með meiri skjátíma, séu þyngri og andleg líðan þeirra sé verri en hinna sem sofi lengur.

Að mati Erlings og rannsakenda er tvennt í stöðunni; seinka skólabyrjun, seinka klukkunni eða hvort tveggja.

„Í stað þess að byrja skólann rúmlega átta á morgnana er hægt að byrja níu eða hálftíu. Þetta finnst okkur líka geta fært rök fyrir því að við þurfum að seinka klukkunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert