Eiginkona og dóttir mannsins teknar til skoðunar

Frá blaðamannafundi í húsakynnum almannavarnadeildar í Skógarhlíð í dag.
Frá blaðamannafundi í húsakynnum almannavarnadeildar í Skógarhlíð í dag. mbl.is/Eggert

Eiginkona og dóttir mannsins sem greindist í dag með kórónuveiruna voru með honum í skíðaferð í bænum Andalo á Norður-Ítalíu dagana 15.-22. febrúar, auk fleiri Íslendinga.

Unnið er að því að greina sýni úr eiginkonu mannsins og dóttur og verið er að greina hvaða hópur Íslendinga var í þessari sömu skíðaferð. 

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á blaðamannafundi í dag. Fleiri einstaklingar, sem hafa verið í tengslum við manninn, hafa verið eða verða teknir til rannsóknar.

Sóttvarnalæknir sagði að maðurinn væri sem betur fer ekki alvarlega veikur, en veikindi hans gerðu vart við sig „nokkrum dögum“ eftir að hann kom heim frá Norður-Ítalíu. Þar var fjölskyldan á skíðum utan skilgreinds smithættusvæðis.

Alma D. Möller landlæknir sagði að fjölskyldan öll hefði tekið þeim tíðindum að maðurinn væri greindur með veiruna „af miklu æðruleysi“ og hefði þegar gefið afar greinargóðar upplýsingar til heilbrigðisyfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert