Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur birt mikilvægar upplýsingar um hvernig forðast eigi smit við kórónuveirunni COVID-19 og hvað eigi að gera ef grunur vakni um smit.
Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar greindist hér á landi fyrr í dag, en íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri er nú í einangrun á Landspítala eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt.
Bent er á að fólk eigi að gæta vel að hreinlæti, þvo hendur reglulega með sápu og nota handspritt. Forðast snertingu við augu, nef og munn.
Hósta og hnerra í krepptan olnboga eða í pappír þegar um kvefeinkenni er að ræða. Forðast náið samneyti við einstaklinga með hósta og almenn kvefeinkenni.
Sýna aðgát í umgengni við algenga snertifleti á fjölförnum stöðum, s.s. handrið, lyftuhnappa, snertiskjái, greiðsluposa og hurðarhúna.
Heilsa frekar með brosi en handabandi eða faðmlagi.
Nánari upplýsingar má finna á vef landlæknis.