Íslensk ungmenni á aldrinum 15 til 17 ára sofa að meðaltali aðeins sex klukkustundir á sólarhring. Það er tveimur klukkustundum minna en aldurshópurinn þarf samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum.
Aðeins tíu prósent 15 ára ungmenna ná átta klukkustunda svefni, að því er fram kemur í viðamikilli langtímarannsókn á heilsuhegðun ungra Íslendinga, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.
Rannsóknin er framhald á vinnu sem hófst á árunum 2006-2008 en fylgst hefur verið með hópi barna sem fæddust árið 1999.
„Þetta er stórt heilsufarsvandamál,“ segir Erlingur Jóhannsson, prófessor við HÍ, sem stýrði rannsókninni, um svefntíma ungmenna.