Efling veitir undanþágu til þrifa og umönnunar

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/Hari

Efling hefur samþykkt að veita velferðarsviði Reykjavíkurborgar undanþágu frá verkfalli vegna kórónuveirunnar. Undanþágan nær til þrifa og umönnunar hjá öldruðum og fötluðum og gildir til loka dags á miðvikudag. Þetta staðfestir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is.

„Þetta er gert fyrst og fremst til að tryggja hreinlæti og aðbúnað hjá öldruðum og fötluðum. Við leituðum að fyrra bragði eftir áliti almannavarna og fengum það hratt og örugglega. Þetta er í samræmi við þeirra leiðbeiningar,“ segir Viðar.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknir lýstu í gær yfir áhyggjum vegna yfirstandandi og yfirvofandi verkfalla þar sem aðgerðirnar gætu haft áhrif á viðkvæmustu hópa samfélagsins.

Einnig var bent á að takmörkuð sorphirða gæti dregið úr áhrifamætti sóttvarnaaðgerða. Efling samþykkti í gær undanþágu frá verkfalli vegna sorphirðu eftir að undanþágubeiðni hafði verið sétt í flýtimeðferð.

Félagsmenn Eflingar færa fórn til að tryggja öryggi og heilsu

„Við bendum á að þarna eru okkar félagsmenn að færa ákveðna fórn. Að gefa eftir sitt öflugasta tæki í baráttunni fyrir bættum kjörum sem er verkfallið. Þeir gera það af því þeir vilja tryggja öryggi og heilsu hjá viðkvæmum hópum, við erum stolt af því og það sýnir mikilvægi þessara starfa,“ bætir Viðar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert