Reykjavíkurborg vill að grunnskólar verði þrifnir

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er formaður neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er formaður neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar hefur fundað stíft frá því að ríkislögreglustjóri lýsti í samráði við sóttvarnalækni yfir hættustigi almannavarna vegna kórónuveirusmits hér á landi. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gerir ráð fyrir því að neyðarstjórn muni funda daglega eins lengi og þörf er á.

Meðal umræðuefna á fundum neyðarstjórnar eru undanþágubeiðnir frá verkföllum Eflingar sem standa nú yfir. Efling hefur veitt undanþágur vegna sorphirðu sem og vegna umönnunar og þrifa hjá öldruðum og fötluðum en ekki vegna þriðju undanþágubeiðnarinnar sem snýr að þrifum í grunnskólum.

Hafa ekki fengið jákvætt svar með grunnskólana

„Við fengum neikvæð viðbrögð við undanþágubeiðnum undir lok vikunnar þannig að eitt af því sem var ákveðið á fundunum var að láta reyna aftur á þær um helgina. Við erum ekki komin með jákvæða niðurstöðu varðandi allar undanþágur,“ segir Dagur í samtali við mbl.is og bætir við:

„Til dæmis ekki vegna þrifa í grunnskólunum sem við leggjum áherslu á. Neyðarstjórnin er að undirbúa að fylgja leiðbeiningum frá almannavörnum um aukin þrif í öllum húsum þar sem við veitum þjónustu. Sérstaklega nefnt í því sambandi eru lyftuhnappar, hurðarhúnar og annað slíkt. Það er í mörg horn að líta svo vægt sé til orða tekið,“ segir borgarstjóri.

Í neyðarstjórn Reykjavíkurborgar sitja borgarstjóri og borgarritari ásamt yfirmönnum lykilsviða borgarinnar. Er sá vettvangur notaður til að samræma aðgerðir og undirbúning til að fá yfirsýn á hverjum tíma, segir Dagur.

Boðað hefur verið til aukafundar í borgarráði í fyrramálið til að gefa borgarráði yfirlit yfir vinnu neyðarstjórnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka