Undanþágubeiðni vegna þrifa í grunnskólum hafnað

Viðar Þorsteinsson segir rök Reykjavíkurborgar fyrir undanþágubeiðninni ekki eiga við …
Viðar Þorsteinsson segir rök Reykjavíkurborgar fyrir undanþágubeiðninni ekki eiga við í tilfelli grunnskólanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undanþágubeiðni Reykjavíkurborgar frá verkfalli Eflingar sem snýr að þrifum á grunnskólum borgarinnar hefur verið hafnað af Eflingu. Þetta segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is.

Efling hefur veitt borginni tvær undanþágur frá yfirstandandi verkfalli nú þegar. Þær snúa að sorphirðu annars vegar og þrifum og umönnun hjá öldruðum og fötluðum hins vegar. Farið var fram á undanþágurnar eftir að í ljós kom að kórónuveirusmit hefði greinst hér á landi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindi frá því fyrr í dag í samtali við mbl.is að borgin hefði óskað eftir þriðju undanþágunni sem varðaði þrif í grunnskólum. Dagur sagði borgina leggja áherslu á það í ljósi leiðbeininga frá almannavörnum ríkislögreglustjóra um aukin þrif í húsum þar sem þjónusta er veitt.

Rökin eiga ekki við í tilfelli grunnskólanna

Viðar segir að rök Reykjavíkurborgar sem byggja á áhyggjum almannavarnadeildar og sóttvarnalæknis um áhrif verkfallsins á viðkvæmustu hópa samfélagsins ekki eiga við.

„Við teljum nokkuð ljóst að röksemdirnar sem tengjast sérstaklega þessum faraldri eigi ekki við um skólastarfsemi vegna þess að þar eru ekki þessir sérstaklega viðkvæmu hópar á ferð,“ útskýrir Viðar og bætir við:

„Þessar stofnanir hafa einfaldlega lokað í mörgum tilfellum þannig að borgin sjálf hefur þannig augljóslega færa leið til að leysa þann vanda án þess að setja fólk í hættu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert