„Ef mig langar til að panta mér flösku af Reyka-vodka þá er það ekkert mál. Ég get pantað hana frá útlöndum. Mjög einfalt allt saman. Fyrir utan smáatriðið sem felst í því að senda flöskuna til útlanda til að senda hana aftur til Íslands og fá hana senda heim til mín,“ ritar Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður í Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Skoðanapistlar Loga eru fastur liður á síðum Sunnudagsblaðsins og hér að neðan má lesa afganginn af grein hans í heild sinni:
Vissuð þið að það er tilboð á bjór á Dönsku kránni í dag? Íslenskur bjór á 750 krónur og brennivínsskot á 800 kall. Og vissuð þið að Tíu sopar buðu þeim sem komu í búningi og sungu á öskudaginn upp á bjór? Og að Erdinger mun vera vinsælasti hveitibjórinn á Íslandi? Og þú færð Aperotivo Spritz á 1.500-kall á Sportbarnum hans Gumma Ben í kvöld?
Ég veit þetta af því ég sá þetta auglýst. Sem hlýtur nú að vera merkilegt í ljósi þess að það er klárlega bannað að auglýsa áfengi á Íslandi. Bara algjörlega stranglega bannað. Fjölmiðlar hafa þurft að borga háar sektir fyrir að leyfa sér að nefna áfengi. En samt voru allar þessar auglýsingar á íslensku. Á litlum og krúttlegum miðli sem heitir Facebook. Sem vel að merkja borgar engin gjöld á Íslandi.
Út af fyrir sig skil ég bann við áfengisauglýsingum. Altso pælinguna. Framkvæmdin er bara svo rosalega heimskuleg. Við sjáum auglýsingar alls staðar. Instagram, Youtube, Twitter og að sjálfsögðu í sjónvarpinu. En ekki í íslenskum fjölmiðlum. Það væri hræðilegt. Það verður að teljast líklegt að íslenskir unglingar missi stjórn á lífi sínu eftir að hafa séð freyðivínsauglýsingu á blaðsíðu 17 í Mogganum. En þau eru alveg örugg þegar þau sjá auglýsingu um Egils Gull með smáa letrinu um að þetta sé ekkert spennandi. Þetta er bara léttöl.
Þetta bann finnst mér álíka gáfulegt og að banna íslenskum aðilum að stunda netverslun með áfengi. Ef mig langar til að panta mér flösku af Reyka-vodka þá er það ekkert mál. Ég get pantað hana frá útlöndum. Mjög einfalt allt saman. Fyrir utan smáatriðið sem felst í því að senda flöskuna til útlanda til að senda hana aftur til Íslands og fá hana senda heim til mín.
Nú er sem sagt loksins komið fram frumvarp sem myndi leyfa íslenska netverslun með áfengi. Með ströngum reglum og fyrirvörum. Og líka að íslensk brugghús geti selt afurðir sínar á staðnum til gesta sem hafa mögulega komið að skoða framleiðsluna. Að sjálfsögðu aðeins þeim sem hafa aldur til kaupanna. Einhver gæti sagt að þetta væru eðlileg spor í átt að frelsi og eðlilegum viðskiptaháttum.
En svo eru hinir sem segja okkur að auðvitað sé það hræðileg hugmynd að hægt sé að senda áfengi. Hvað ef 16 ára unglingur tekur bara við sendingunni fyrir mistök og hverfur samstundis á vit Bakkusar? Og líklega gætum við búist við hópferðum unglinga á Árskógssand með fölsuð skilríki að kaupa Kalda.
Eða ekki.
Nú er orðið býsna langt síðan ég var unglingur. En ef það er eitthvað sem ég man frá þeim tíma þá er það að maður reddaði sér. Þá var til siðs að hanga við hornið á Ríkinu (sem nú heitir því virðulega nafni Vínbúðin) og fá einhvern til að kaupa fyrir sig. Einhvern sem hafði gengið þessa sömu leið í þroskanum og fann til með illa klæddum unglingum að reyna að kaupa það sem var ódýrast. Sama hvernig það bragðaðist. Hvað maður hefði gefið fyrir að vera í hlýjunni í Kringlunni. Síðan hefur vínbúðum fjölgað mikið og úrvalið aukist. Samt sem áður hefur dregið úr unglingadrykkju.
Kannski er möguleiki, þótt hann hljómi fjarlægur og furðulegur, að við hættum að afneita raunveruleikanum og horfumst í augu við það að við getum ekki lokað landinu og stýrt öllu sem okkur dettur í hug (eða einhverjum öðrum, ég hef ekki þessa þörf fyrir að ákveða hluti fyrir annað fólk). Treystum fólki og setjum reglur sem eru skynsamlegar, frjálslyndar og umfram allt eðlilegar.