Vinna meira og fá lægri laun

Agnieszka Ewa Ziólkowska og Claudie Ashonie Wilson taka þátt í …
Agnieszka Ewa Ziólkowska og Claudie Ashonie Wilson taka þátt í pallborðsumræðum á viðburðinum Hennar rödd í Iðnó á fimmtudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinnudagur kvenna af erlendum uppruna er lengri en gengur og gerist meðal kvenna á Íslandi. Auk þess er vinnutími þeirra óreglulegri sem getur hamlað þátttöku í margs konar viðburðum, íslenskunámi og aðgangi að íslensku málsamfélagi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu, Staða kvenna af erlendum uppruna – Hvar kreppir að?

Viðburðurinn Hennar rödd — pallborðsumræður með konum af erlendum uppruna verður haldinn 5. mars í tilefni alþjóðlegs barráttudags kvenna sem er 8. mars. Í pallborðsumræðum verður rætt um stöðu kvenna af erlendum uppruna á íslenskum atvinnumarkaði. Meðal annars verður rætt um nám, reynslu, tungumálakunnáttu, misrétti hvað varðar laun og starfsumhverfi, upplýsingaflæði og fleira. Fundarstjóri er Claudie Ashonie Wilson, héraðsdómslögmaður hjá Rétti Aðalsteinsson & Partners.

Konur af erlendum uppruna eru oftar en karlar of menntaðar fyrir þau störf sem þær sinna og atvinnuleysi er meira meðal þeirra en meðal innlendra kvenna, sérstaklega meðal þeirra sem hafa erlent ríkisfang. Atbeini og fjölbreytileiki kvenna af erlendum uppruna er lítt sýnilegur í íslensku samfélagi. Fleiri kvenkyns innflytjendur útskrifast úr framhaldsskólum en karlkyns innflytjendur og að jafnaði útskrifast fleiri konur með viðbótarstig á framhaldsskólastigi en karlar, meðal innflytjenda. 

Lykilþáttur í sköpun hagvaxtar

Íbúum af erlendum uppruna hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár og hefur þátttaka þeirra á vinnumarkaði verið lykilþáttur í að skapa hagvöxt síðustu ára. Næstum fjórði hver starfsmaður á Íslandi er erlendur og er atvinnuþátttaka þeirra mjög há, eða 94%, samanborið við 77% hjá innfæddum.

Samkvæmt grein sem Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritar á vef samtakanna, segir að ætla megi að erlendir ríkisborgarar hafi verið rúmlega 49 þúsund eða 14% íbúa um síðustu áramót. Fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi hefur næstum sexfaldast á tæpum tveimur áratugum.

Erlendir ríkisborgarar sem flytjast til Íslands koma langflestir í atvinnuleit. Undanfarin ár hafa um 90% þeirra sem til landsins koma verið á aldrinum 20-59 ára. Árið 2019 voru erlendir ríkisborgarar einn af hverjum fimm íbúum á vinnualdri en árið 2005 voru þeir einn af hverjum tuttugu. Hlutdeild erlendra ríkisborgara á þessu aldursbili hefur þannig fjórfaldast á einum og hálfum áratug.

Atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði er hærri en íslenskra, eða 94% á aldursbilinu 20-59 ára, samanborið við 79% hjá íslenskum. Árið 2019 voru erlendir ríkisborgarar 23% af heildarvinnumarkaði á aldrinum 20-59 ára, samanborið 7% árið 2005.

Launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna …
Launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna ár hvert meðal aðildarfélaga Alþýðusambandsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margs konar hindranir menntaðra innflytjenda

Claudie ritstýrði ásamt Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur rannsókn á atvinnuþátttöku innflytjenda og kemur fram í skýrslu sem þær unnu fyrir lögmannsstofuna Rétt Aðalsteinsson & Partners með  styrk frá þróunarsjóði innflytjendamála, að mikilvægt sé að skilvirk og samþætt stefna um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi sé til staðar, þannig að innflytjendur hafi raunhæft tækifæri til að lifa með reisn og ná sínum hæstu möguleikum.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að margs konar hindranir standi í vegi menntaðra innflytjenda að vinnu hjá hinu opinbera. Þar á meðal er ófullnægjandi íslenskukunnátta, sem vegur þungt, en samt sem áður má rekja margar hindranir til óhagstæðra laga og stefnu stjórnvalda, sem og framkvæmdar. Þessi niðurstaða rímar við MIPEX-skýrsluna um Ísland frá árinu 2015 þar sem komist var að því að stefnumótun Íslands vegna aðlögunar innflytjenda skapi í raun fleiri hindranir en lausnir fyrir þátttöku innflytjenda í samfélaginu.

Þrátt fyrir að ýmis jákvæð lög og jákvæðar stefnur hafi tekið gildi nýlega er þörf á að endurmóta stefnu íslenska ríkisins vegna aðlögunar innflytjenda. Þetta er sérstaklega skýrt í tilfelli stefnu ríkisins um aðlögun á vinnumarkaði, sem gefur til kynna að aðgengi að vinnumarkaði sé lagt að jöfnu við aðlögun á vinnumarkaði. Til viðbótar miða vinnumarkaðsaðgerðir sjaldan að því að auka atvinnuþátttöku innflytjenda hjá hinu opinbera og þá má sjá að sveitarfélög hafa gripið til frekari aðgerða en ríkið og stofnanir þess, segir enn fremur í skýrslunni.

Brotið á réttindum fólks

Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, er ein fjögurra kvenna sem tekur þátt í pallborðsumræðunum á fimmtudaginn. Hún er fyrsta konan af erlendum uppruna sem hefur gegnt embætti varaformanns í félaginu. Agnieszka hefur búið á Íslandi í þrettán ár. Fyrstu árin starfaði hún við þrif hjá ISS. Þar voru flestir starfsmennirnir konur af erlendum uppruna. Margar þeirra menntaðar en fengu ekki störf í samræmi við menntun sína hér á landi að sögn Agnieszka.

Agnieszka segir starfsöryggið oft takmarkað og tekur sem dæmi að þar sem hún var ekki með fastráðningu við þrifin hafi vinnuveitandinn hringt í hana að morgni og sagt henni hvert hún ætti að fara og þrífa. Þannig hafi hún kynnst mörgu fólki, brotum á réttindum fólks og ólíkum aðstæðum á vinnustöðum. „Ég sá líka hversu óréttlátt launakerfið er oft. Að þeir sem unnu mest og erfiðustu störfin fengu lægstu launin á meðan aðrir sem höfðu það frekar náðugt fengu hærri laun,“ segir Agnieszka.

Í sex ár vann hún sem bílstjóri hjá undirverktaka Strætó b/s.  Á þessum árum urðu talsverðar breytingar hjá fyrirtækinu og fleiri útlendingar komu þangað til starfa. Hún segir að víða sé pottur brotinn þegar kemur að réttindum innflytjenda í ferðaþjónustunni og einnig í verktakageiranum. Oft sé fólk hér í styttri tíma og ekki upplýst um réttindi sín.

Þetta er eitt helsta stefnumál hennar hjá Eflingu — að bæta stöðu innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði. Það er gert með ýmsum hætti, meðal annars sé unnið mikið starf við þýðingar hjá Eflingu og eru nú nánast allar upplýsingar á íslensku, ensku og pólsku. Vonir standa til þess að tungumálin verði fleiri síðar.

Innan Eflingar er meira en helmingur félagsmanna af erlendum uppruna segir Agniezka. Hún segir mikilvægt að koma á sektakerfi fyrir þau tilfelli þegar fyrirtæki brjóta á réttindum starfsmanna sinna. „Eins og staðan er í dag er kerfið hægvirkt og hvetur ekki fyrirtæki til þess að fylgja lögum. Ef fyrirtæki yrðu sektuð strax fyrir slík brot myndu stjórnendur þeirra hugsa sig um tvisvar áður en þeir sviku starfsfólk sitt,“ segir Agniezka.

Allir þekkja alla

Innan Eflingar er meira en helmingur félagsmanna af erlendum uppruna …
Innan Eflingar er meira en helmingur félagsmanna af erlendum uppruna segir Agniezka Ewa Ziólkowska. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún segir að þrátt fyrir að verið sé að reyna að sporna við brotastarfsemi á vinnumarkaði og launaþjófnaði af hálfu hins opinbera sé staðan því miður sú að vegna þess hve lítið samfélag Ísland er og allir þekkja alla þá er horft fram hjá brotum þeirra. Svo sem tengsla milli eigenda fyrirtækja og starfsmanna hjá hinu opinbera sem eiga að verja hag launþega. 

Í skýrslu ASÍ frá því í fyrra kom fram að launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna ár hvert meðal aðildarfélaga Alþýðusambandsins. Meira en helmingur allra krafna stéttarfélaga eru gerðar fyrir hönd félagsmanna af erlendum uppruna. Um 19% launafólks á íslenskum vinnumarkaði er af erlendum uppruna og um 25% af félagsmönnum umræddra stéttarfélaga.

Um helmingur allra krafna kemur úr hótel-, veitinga- og ferðaþjónustu en hæstu launakröfurnar eru gerðar á fyrirtæki í mannvirkjagerð. Líkt og bæði ASÍ og Samtök atvinnulífsins benda á hefði íslensku atvinnulífi reynst ómögulegt að manna aukin umsvif á undanförnum árum án aðkomu erlends launafólks. Margt bendir til þess að samhliða þessari þróun hafi jaðarsetning og brotastarfsemi aukist á íslenskum vinnumarkaði. Þetta birtist meðal annars í því að stéttarfélög fá á borð til sín fleiri og alvarlegri mál en áður tengd launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum.

Brotin virðast einkum beinast gegn hópum sem síður þekkja réttindi sín og eru í erfiðari stöðu til að sækja rétt sinn, þ.e. erlendu launafólki, ungu fólki, tekjulágum og einstaklingum í hlutastörfum, óreglulegri vinnu eða lausbeisluðu ráðningarsambandi við atvinnurekanda. Við slíkum brotum eru í dag engin viðurlög. Alþýðusambandið telur það óásættanlegt að atvinnurekendur geti óátalið brotið með þessum hætti á launafólki og telur forgangsmál að sett verði ákvæði um viðurlög við slíkum brotum í lög og kjarasamninga. 

Ekki vandamál kvennanna heldur stjórnvalda

„Hér gilda ákveðnar reglur varðandi jafnrétti kynjanna en því er …
„Hér gilda ákveðnar reglur varðandi jafnrétti kynjanna en því er ekki þannig farið þegar kemur að fólki með ólíkan bakgrunn, minnihlutahópum í íslensku samfélagi,“ segir Claudie Ashonie Wilson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Claudie segir að staða langskólagenginna kvenna af erlendum uppruna sé langt frá því að vera í lagi á Íslandi og þær oft ofmenntaðar fyrir þau störf sem þeim bjóðast. Jafnframt eigi þær oft erfitt með að komast á íslenskan vinnumarkað og hæfi þeirra oft stórlega vanmetið. 

„Þess vegna erum við með hátt hlutfall erlendra kvenna með mikla menntun sem eru að vinna störf sem eru ekki í samræmi við menntun þeirra,“ segir Claudie. Margar rannsóknir sýni þetta og vísar Claudie meðal annars í skýrsluna Konur af erlendum uppruna, Hvar kreppir að? Þar kemur fram að töluleg gögn sýna að konur af erlendum uppruna nýta síður menntun sína í starfi en karlar af erlendum uppruna, en þær bæta í meira mæli við menntun sína en karlar eftir að til Íslands er komið. 

Þegar innflytjendakonur eru aðgreindar frá innflytjendakörlum kemur í ljós að hlutfall ofmenntunar hefur verið mun hærra meðal innflytjendakvenna. Innflytjendakonur eru þrefalt til fimmfalt líklegri en innlendar konur til að vera í störfum sem þær eru ofmenntaðar til.

„Það sem er mikilvægast og mikilvægt að horfa til er að það er ekki lengur hægt að horfa á þetta sem vandamál erlendra kvenna á íslenskum vinnumarkaði heldur miklu frekar að íslensk stjórnvöld eru ekki að gera nóg til að tryggja rétt þeirra,“ segir Claudie.

Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á að innflytjendur sæta oft lagalegum og kerfislægum hindrunum þegar þeir sækjast eftir því að fá menntun sína metna hérlendis. Að mati ENIC/NARIC, upplýsingaskrifstofu Íslands sem sér um akademískt mat á erlendu námi, er ein helsta hindrun innflytjenda við að hefja nám á háskólastigi skortur á úrræðum fyrir þá sem hafa menntun frá löndum utan EES-svæðisins þar sem skipulag skólakerfisins er með öðrum hætti en hér (nemendur byrja fyrr í háskóla og halda áfram almennu námi á háskólastigi).

Hin almenna regla er að nemendur frá þessum svæðum þurfa að hafa lokið einu ári á háskólastigi til að uppfylla inntökuskilyrði í háskólanám hér. Hvað mat á námi til starfsleyfis varðar er eitt helsta vandamálið að mati ENIC/NARIC það að innflytjendur utan EES hafa kvartað undan skorti á leiðbeiningum. Ef viðkomandi fær synjun á umsókn sína um starfsleyfi hefur oft og tíðum vantað upp á leiðbeiningar, þ.e. hvað viðkomandi þurfi að gera til að uppfylla skilyrði til starfsleyfis og telur stofnunin að tiltölulega auðvelt væri að bæta úr þessu með betri leiðbeiningum um möguleg næstu skref í stöðluðum synjunarbréfum.

Það er ekki þannig að konurnar hafi ekki áhuga á störfum tengdum menntun þeirra heldur skortir þær tækifæri, segir Claudie. Hún segir eðlilegt að horfa til þess hvort þetta er mismunun gagnvart konum af erlendum uppruna og rannsóknir hennar og Auðar Tinnu Aðalbjarnardóttur bendi til þess. Eitt af því er hvernig sé staðið að ráðningum og gagnsæi við ráðningar. „Hér gilda ákveðnar reglur varðandi jafnrétti kynjanna en því er ekki þannig farið þegar kemur að fólki með ólíkan bakgrunn, minnihlutahópum í íslensku samfélagi,“ segir Claudie

Fordómar við ráðningar

Engum gögnum er safnað saman þar um og þannig hafa stjórnvöld ekki staðfestar upplýsingar um að ekki sé um mismunun að ræða. Að hér gildi jafnræði á vinnumarkaði þegar innflytjendur eiga í hlut. Hún bendir á að rannsóknir sýni ekki bara það að innflytjendur fái síður störf í samræmi við menntun sína heldur sé 15% launamunur til staðar milli innflytjenda og innlendra með háskólamenntun. 

Þá hafa rannsóknir sýnt að innflytjendur með menntun sæta ekki einungis mismunun á almennum atvinnumarkaði hvað laun varðar, heldur jafnframt við ráðningarferlið. Í þessu samhengi vísar hún til rannsóknar sem hafði það m.a. að markmiði að skoða ráðningar fólks af erlendum uppruna til sérfræðistarfa.

„Ein af niðurstöðum rannsóknarinnar bendir til þess að fordómar á íslenskum vinnumarkaði birtist helst í kringum trúarbrögð, þ.e. andstöðu við íslam. Þá sýndi rannsóknin að viðkomandi mannauðsstjórar voru meðvitaðir um fordóma gagnvart einstaklingum frá Austur-Evrópu og reyndu að vinna gegn slíkum hugmyndum. Þá komust rannsakendur að þeirri niðurstöðu að reynsla sem aflað er á íslenskum vinnumarkaði var metin mikilvægari en reynsla erlendis frá.

Til er rannsókn um um stöðu innflytjenda í ráðningarferli á íslenskum vinnumarkaði með könnun frá sjónarhóli stjórnenda íslensks fyrirtækis, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að erlent nafn umsækjanda um störf hafi ekki neikvæð áhrif á ráðningarmöguleika hans en nýlegar reynslusögur gefa þó aðrar vísbendingar en rannsóknin,“ segir í skýrslu þeirra Claudie og Auðar. 

mbl.is/Hari

Agnieszka tekur undir þetta og segir þetta bæði reynslu hennar sjálfrar sem og fjölmargra annarra sem hún hafi rætt við og starfað með. Þegar hún starfaði við þrif unnu meðal annars hjúkrunarfræðingar með henni og segir Agnieszka að þegar hún hafi sjálf sótt um störf í samræmi við menntun hafi hún aldrei verið boðuð í viðtal. Hún segir líklegustu skýringuna vera útlent nafn.

Sumarið 2018 voru samþykkt tvenn lög á þessu sviði á Alþingi, þ.e. lög nr. 85/2018 og 86/2018 til innleiðingar á tilskipunum Evrópuráðsins nr. 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu og nr. 2000/43/EB um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna.

Ekki nóg að setja lög 

Claudie segir að lengi hafi verið barist fyrir þessum lögum og það hafi tekið langan tíma að fá þau í gegn þrátt fyrir mikla baráttu hér á landi sem og frá alþjóðlegum stofnunum.

 „En þrátt fyrir að lögum hafi verið breytt fer minna fyrir því að lögunum sé fylgt. Fjármagn var sett í innleiðingu laganna en ekki í framkvæmdina því miður,“ segir Claudie en Jafnréttisstofa á að annast framkvæmd laganna. Ólíkt íslensku leiðinni hafa önnur norræn ríki gripið til fjölda aðgerða til að stuðla að jafnræði vegna atvinnumöguleika minnihlutahópa, sökum þjóðernis, trúar eða kynþáttar þeirra á almennum atvinnumarkaði og hjá hinu opinbera. Þessu til viðbótar tryggja ríkin að í fjárlögunum séu fjárveitingar til framkvæmdar sértækra aðgerða.

Hún nefnir Noreg sem dæmi en þar er meira en áratugur síðan stjórnvöld mörkuðu sér stefnu í málum tengdum innflytjendum á vinnumarkaði. Til að mynda er það stefna ríkisins og sveitarfélaga að ráða einstaklinga með erlendan bakgrunn til starfa. Eins eru innflytjendur hvattir til að sækja um og sett sem skylda að bjóða að minnsta kosti einum innflytjanda með sérfræðiþekkingu sem ekki er frá vestrænu ríki í starfsviðtal. Ef umsækjendur eru jafnhæfir eigi að veita innflytjanda forgang við ráðningarferlið. 

Til að mynda setti eitt sveitarfélag sér markmið um að hafa um 19% starfsmenn af erlendum bakrunni sem tilheyri ekki vestrænum ríkjum og náði því markmiði árið 2008. Önnur sveitarfélög settu álíka markmið og til viðbótar var það sérstaklega sett í auglýsingar að innflytjendur væru hvattir til að sækja um, boðið var upp á starfsnám og námskeið fyrir innflytjendur sem voru nýfluttir á svæðið og voru mannauðsstjórar sendir á sérstök námskeið um fjölmenningarstjórnun.

Fleiri kvenkyns innflytjendur útskrifast úr framhaldsskólum en karlkyns innflytjendur.
Fleiri kvenkyns innflytjendur útskrifast úr framhaldsskólum en karlkyns innflytjendur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Líkt og á Íslandi er meirihluti innflytjenda í Noregi með menntun og þekkingu sem aflað var í heimaríki þeirra. Stofnunin NOKUT fer með það hlutverk að meta háskólamenntun innflytjenda. NOKUT veitir meðal annars flýtimeðferð vegna viðurkenningar á menntun innflytjenda en litið er svo á að það sé til hagsbóta fyrir norsk fyrirtæki sem vilja ráða til sín innflytjendur. Boðið er upp á þjónustuna að kostnaðarlausu en þá veitir NOKUT ráðningaraðilum álit sem er ekki bindandi heldur ætlað að aðstoða við ráðningarferlið. Þessu til viðbótar metur NOKUT þekkingu einstaklinga í iðngreinum, býður upp á brúarnámskeið í greinum sem tengjast lögvernduðum störfum og starfsleyfi þarf til, t.d. fyrir hjúkrunarfræðinga og kennara við Metrópólitan-háskólann í Ósló. Enn fremur var kynnt brúarnámskeið sérstaklega fyrir einstaklinga sem hafa fengið alþjóðlega vernd og eru með menntun í vísindum eða tækni/verkfræðimenntun til að gera þá að meira aðlaðandi kosti fyrir norska atvinnurekendur.

Svíar og Finnar hafa einnig gengið mun lengra í að styðja við innflytjendur á vinnumarkaði en Íslendingar. Eins er konum með erlendan bakgrunn frá ríkjum öðrum en svokölluðum vestrænum ríkjum boðið upp á sérstök úrræði enda þykir mikilvægt að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði. 

Innflytjendakonur eru þrefalt til fimmfalt líklegri en innlendar konur til …
Innflytjendakonur eru þrefalt til fimmfalt líklegri en innlendar konur til að vera í störfum sem þær eru ofmenntaðar til. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eðlilegt að læra íslensku en vantar góð námskeið

Eitt af því sem bæði Agnieszka og Claudie nefna eru íslenskunámskeið eða réttara sagt skortur á góðum námskeiðum og vilja atvinnurekenda til að styðja starfsfólk til þátttöku.

Flestir þeirra sem hafa verið hér í einhver ár og vilja setjast hér að hafa öðlast einhverja færni í íslenskri tungu. Allt frá því að vera með litla færni í að vera með móðurmálsfærni. 

„Eðlilegt er að fólk sem sest hér að læri íslensku og stundum mættu atvinnurekendur koma fólki til aðstoðar það er að veita þeim tækifæri til þess. Margir sem vinna mjög langan vinnudag og eiga því erfitt með að stunda nám. Síðan er fólk mislengi að læra íslenskuna. Sumir virðast ná henni á tveimur til þremur árum á meðan aðrir eru mun lengur að læra hana,“ segir Agniezka

Bæta þurfi íslenskukennsluna bæði varðandi gæði kennslu og þátttökukostnað. Nauðsynlegt er að úttekt fari fram á þeirri íslenskukennslu sem er í boði hérlendis og að samræmd stefna sé til um þá íslenskukennslu sem í boði er. Þátttaka innflytjenda í þeirri vinnu er nauðsynleg enda stendur það þátttakendum næst að geta lagt mat á gæði kennslu og hvað mætti betur fara, segir Claudie og vísar í skýrsluna sem hún og Auður unnu. 

„Mikilvægt er að allar ríkisstofnanir og sveitarfélög innleiði Evrópuramma um tungumálaviðmiðin A1-C2 vegna kröfu um íslenskukunnáttu bæði í starfslýsingum og við ráðningar. Jafnframt er mikilvægt að stofnanir geri ekki kröfu um kunnáttu í einu Norðurlandamáli nema slíkt sé ótvírætt nauðsynlegt, þar sem dæmi á öðrum Norðurlöndum sýna að þetta kann að fela í sér mismunun gagnvart innflytjendum og hafa fælingaráhrif,“ segir í skýrslunni. 

Atvinnuleysi hefur aukist mikið á meðal innflytjenda á Íslandi.
Atvinnuleysi hefur aukist mikið á meðal innflytjenda á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Agniezka segir að það séu margar hindranir sem konur af erlendum uppruna mæti á íslenskum vinnumarkaði og eins í samfélaginu. Til að mynda skorti þær yfirleitt bakland sem íslenskar konur hafa. Svo sem fjölskyldu sem er til staðar þegar eitthvað bjátar á eða varðandi aðstoð með börn. Þær upplifi sig því oft einar og varnarlausar og einfaldir hlutir geta orðið flóknir vegna þessa. 

Viðburðurinn Hennar rödd var haldinn í fyrsta sinn í mars 2019 en hugmyndina má rekja til móður Chanel Bjarkar Sturludóttur, Letetia B. Jonsson, en hún er bresk kona af jamaískum uppruna sem giftist íslenskum manni og flutti með honum ásamt börnum þeirra til landsins.

Chanel Björk og vinkona hennar, Elínborg Kol­beins­dótt­ir, voru einhvern tíma að ræða sögu Letetiu hér á landi og úr varð viðburðurinn Hennar rödd líkt og rakið var í viðtali hér á mbl.is í fyrra. 

Auk Claudie og Agniezka munu þær Patience Adjahoe Karlsson, eigandi verslunarinnar Afrozone, Renata Emilsson Pesková, doktor í málvísindum, og Marvi Ablaza Gil, hjúkrunarfræðingur á
geðsviði með menntun í fjölmenningu á heilbrigðissviði, taka þátt í umræðunum á fimmtudag í Iðnó.

Lokað hefur verið fyrir skráningu á pallborðsumræðurnar vegna mikillar aðsóknar. Kynnt verður á síðu viðburðarins á Facebook hvort einhver sæti losna á degi viðburðarins. Fyrir þá sem ná ekki að mæta, verður myndbandi af viðburðinum deilt á Facebook-síðu Hennar rödd.

Efla þarf þjónustu og veita fólki aðstoð

Líkt og Hannes bendir á í grein sinni á vef Samtaka atvinnulífsins hefur atvinnuleysi vaxið hraðar meðal erlendra ríkisborgara en íslenskra undanfarið. Í árslok síðasta árs voru erlendir ríkisborgarar 40% atvinnulausra en voru 20% fyrir fjórum árum. Hlutdeild útlendinga á atvinnuleysisskrá hefur vaxið jafnt og þétt samhliða fjölgun þeirra á vinnumarkaðnum. Þróunin er áhyggjuefni og kallar á viðbrögð stjórnvalda til að snúa henni við. Ef illa fer gæti stór hluti þessa hóps fallið brott af vinnumarkaði og þurft á framfærsluaðstoð frá öðrum stuðningskerfum að halda, s.s. félagsaðstoð sveitarfélaga eða örorkulífeyri. Rétt er að taka fram að hlutfallslega færri erlendir ríkisborgarar njóta nú slíkrar aðstoðar en íslenskir.

Samfélagið þarf að aðstoða fjölskyldur, sem hingað flytja í atvinnuleit, …
Samfélagið þarf að aðstoða fjölskyldur, sem hingað flytja í atvinnuleit, við að festa rætur, meðal annars með því að tryggja sem bestan aðgang að íslenskukennslu. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Breytingin á íbúasamsetningu landsins síðustu ár á sér ekki hliðstæðu í sögunni. Erlendir ríkisborgarar eru 14% íbúa á Íslandi og þeim mun enn fjölga á næstu árum. Rík þörf hefur verið fyrir erlenda starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði á síðustu árum og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram.

Hlutfall erlendra ríkisborgara er enn hærra þegar aðeins er horft til vinnumarkaðarins. Um 23% alls starfsfólks á Íslandi eru erlendir ríkisborgarar, sumir með takmarkaða íslenskukunnáttu. Það leiðir óhjákvæmilega til þess að samskipti fara í auknum mæli fram á ensku. Setja þarf skýra stefnu um hvernig hlúð verður að tungumálinu á sama tíma og aðlögun að aukinni fjölbreytni í uppruna íbúa á sér stað. Gæta verður þess að samfélög innflytjenda einangrist ekki, m.a. vegna tungumálsins. Efla þarf þjónustu við innflytjendur og tryggja þeim möguleika á aðlögun að íslensku samfélagi og menningu.

Samfélagið þarf að aðstoða fjölskyldur, sem hingað flytja í atvinnuleit, við að festa rætur, meðal annars með því að tryggja sem bestan aðgang að íslenskukennslu. Í skólunum þarf að þróa frekar aðferðir við að taka vel á móti fjöltyngdum nemendum. Styðja þarf sérstaklega við börn innflytjenda svo þau standi jafnfætis innfæddum. Þarna þurfa allir að leggja hönd á plóg. Starfsmenntasjóðir aðila vinnumarkaðarins geta t.a.m. aukið enn frekar stuðning við íslenskukennslu.

Ísland verður aldrei aftur það einsleita samfélag sem áður var. Frjálst flæði vinnuafls innan Evrópu og aukinn hreyfanleiki fólks á milli landa hefur breytt samsetningu íbúa landsins til frambúðar líkt og annars staðar á Vesturlöndum. Lykilatriði er að skólakerfið og vinnumarkaðurinn takist á við áskoranir sem því fylgja. Forsendan er að tryggja þátttöku sem flestra í samfélaginu. Virk þátttaka eflir framfærslu- og stuðningskerfi, sem byggð voru upp við aðrar aðstæður en nú ríkja. Innflytjendur auðga ekki aðeins menningu og mannlíf heldur bæta þeir um leið eigin lífskjör og þeirra sem fyrir eru. Virk þátttaka tryggir fleiri greiðendur í sameiginlega sjóði, bæði hins opinbera og lífeyrissjóði, á sama tíma og lífeyrisþegum fjölgar. Það er beinlínis nauðsynlegt að fá þessa innspýtingu vinnandi fólks. Því verður að vanda til verka við móttöku og aðlögun innflytjenda og þeir verða að fá sömu tækifæri og heimamenn, aðgang að tungumálakennslu, menntun og virkri þátttöku í íslensku samfélagi,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í grein sem nefnist Sameinuð í fjölbreytileika.

Skýrsla ASÍ um brotastarfsemi 

Skýrsla ASÍ - hvað mætir útlendingum á íslenskum vinnumarkaði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka