Bæta stöðu leigjenda með breytingum á húsaleigulögum

Unnið er að því að bæta skipulagið á leigumarkaðnum.
Unnið er að því að bæta skipulagið á leigumarkaðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimildir til gerðar tímabundinna leigusamninga eru takmarkaðar verulega, stuðlað er að gerð langtímaleigusamninga og virkari forgangsrétti leigjenda til áframhaldandi leigu. Þetta er á meðal þeirra þátta sem er að finna í frumvarpi til laga um breytingu á húsaleigulögum. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti breytingarnar á opnum fundi í dag sem bar yfirskriftina: „Það á að vera öruggt að leigja“.

Eftir hrunið árið 2008 stækkaði leigumarkaðurinn um 70%. Á árunum 2013-2019 hækkaði leigan um 45% og tekjulægri einstaklingar hafa færst meira yfir á leigumarkaðinn. Árið 2019 greiddu 22% leigjenda yfir helming rástöfunartekna í húsaleigukostnað. Um 8.000 heimili greiða yfir 50% af ráðstöfunartekjum í leigukostnað. Þetta kom meðal annars fram á fundinum.

Tillögurnar eru alls 48 og skiptast í átta flokka. Unnið er að því að bæta stöðu leigjenda, fjölga langtímasamningum, takmarka heimildir til hækkunar á leigu og bæta skipulag á leigumarkaði. 

Flokkarnir átta eru eftirfarandi: 1. Almennar íbúðir. Stækkun kerfisins með stofnframlögum og hærri tekjumörkum. 2. Húsnæðisfélög. Stutt við uppbyggingu óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga. 3. Leiguvernd. Skýrari reglur á leigumarkaði án þess að það bitni á framboði. 4. Skipulags- og byggingarmál. Endurskoðun regluverks til einföldunar og rafvæðing stjórnsýslu. 5. Samgöngur. Hraðari uppbygging samgönguinnviða og almenningssamgangna. 6. Ríkislóðir. Ráðstöfun ríkislóða fyrir íbúðir, þar á meðal fyrir leigumarkað. 7. Upplýsingar. Samræmd söfnun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál. 8. Hlutdeildarlán. Sérstök hlutdeildarlán veitt til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu fasteignarkaup. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert