„Þrátt fyrir allt fá langflestir, eða 80% þeirra sem fá þessa sýkingu, hana vægt. Það má ekki gleyma því. En okkur ber að vernda þá sem geta farið illa út úr þessari sýkingu og þess vegna erum við að grípa til þessara róttæku aðgerða,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is að loknum blaðamannfundi í húsakynnum Almannavarna í dag.
Þar vísar hann meðal annars til þess að biðla til heilbrigðisstarfsfólks að fresta áætlunum sínum um að fara úr landi. Hann segir eðlilegt að ótti breiði um sig á meðal fólks á slíkum tímum. Mikilvægast er að halda ró sinni og fylgjast með réttum upplýsingum sem eigi uppruna sinn hjá heilbrigðisyfirvöldum. Mikið sé til af misvísandi upplýsingum sem þurfi að taka með fyrirvara. „Við erum í nánum samskiptum við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Sóttvarnastofnun Evrópu og þetta eru þeir aðilar sem við treystum langsamlega best fyrir öllum þessum upplýsingum,“ segir Þórólfur.
Í fréttinni hér að neðan er að finna það helsta sem kom fram á fundinum.