Landlæknisembættið hefur boðað útfararstjóra til fundar í byrjun vikunnar vegna verkferla er varða meðhöndlun á líki ef banamein er kórónuveiran COVID-19.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Talið er að væg sýkingarhætta stafi af líkum þeirra sem falla frá af völdum sjúkdómsins.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur óánægju gætt meðal útfararstjóra yfir skorti á upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum hingað til og þeir fagni því að brugðist hafi verið við.
Leiðbeiningar embættis landlæknis verða aðgengilegar á netinu í vikunni en þær taka að öllum líkindum mið af reglum annarra landa.
Uppfært kl. 16.45:
Í viðtali við mbl.is í morgun sagði Rúnar Geirmundsson, eigandi samnefndrar útfararþjónustu og formaður Félags íslenskra útfararstjóra, að útfararstjórar hefðu ekki verið boðaðir á fund landlæknisembættisins en að þeir hefðu talað við embætti landlæknis.