„Við höfum ekki verið boðaðir og enginn hefur haft samband við okkur,“ segir Rúnar Geirmundsson, eigandi samnefndrar útfararþjónustu og formaður Félags íslenskra útfararstjóra.
Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að landlæknisembættið hafi boðað útfararstjóra til fundar í byrjun vikunnar vegna verkferla er varða meðhöndlun á líki ef banamein er kórónuveiran COVID-19, en talið er að væg sýkingarhætta stafi af líkum þeirra sem falla frá af völdum sjúkdómsins.
„Fundur hefur ekki verið boðaður en við höfum talað við embætti landlæknis. Við erum það vel undirbúnir að það er ekki aðkallandi að halda fund strax,“ segir Rúnar, sem á þó von á því að boðað verði til fundar í vikunni.
Hann segir útfararstjóra hafa rætt stöðuna vegna kórónuveirunnar sín á milli undanfarnar vikur. „Allir útfararstjórar eru tilbúnir og við höfum verið í sambandi. Þessi mál eru í góðum farvegi en fréttin kom okkur svolítið á óvart,“ segir Rúnar og vísar í frétt Fréttablaðsins í dag. Hann sem formaður Félags íslenskra útfararstjóra hefur þó verið í sambandi við embætti landlæknis. „Ég var búinn lýsa því yfir að við værum tilbúnir að ræða þessi mál og þeir vissu af því og hafa haft samband við mig, en enginn hefur boðað okkur á fund.“
Þá segir Rúnar það ekki rétt að óánægju hafi gætt hjá útfararstjórum yfir skorti á upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum, líkt og segir í frétt blaðsins. „Það er að minnsta kosti ekki frá okkur komið,“ segir Rúnar og vísar í Félag íslenskra útfararstjóra sem 11 útfararþjónustur í einkarekstri eiga aðild að.
Rúnar segir viðbúnað útfararstjóra svipaðan og í svínaflensufaraldrinum 2009. „Þá áttum við alla galla og vorum í sambandi við ríkislögreglustjóra og landlækni um hversu margir starfsmenn væilbúnir að vinna hversu mörg pláss þyrfti fyrir látið fólk.“
„Við erum alveg tilbúin og eigum nóg af líkpokum,“ bætir Rúnar við.
Leiðbeiningar embættis landlæknis verða aðgengilegar á netinu í vikunni en þær taka að öllum líkindum mið af reglum annarra landa.