Starfsmenn Landspítala í sóttkví

Starfsmenn Landspítala sem komu frá Ítalíu frá og með 29. …
Starfsmenn Landspítala sem komu frá Ítalíu frá og með 29. febrúar, óháð því hvaða leið viðkomandi kom til landsins, verða í heimasóttkví í 14 daga frá heimkomu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmenn Landspítala sem komu frá Ítalíu á laugardag eða síðar verða í heimasóttkví 14 daga frá heimkomu. Þetta eru fyrirmæli frá farsóttanefnd spítalans og er ákvörðunin tekin þar sem skilgreindum áhættusvæðum á Ítalíu vegna kórónuveirunnar hefur fjölgað en allt landið er nú flokkað sem áhættusvæði. Þrjú tilfelli kórónuveiru hafa verið greind hér á landi. 

Ekki liggur fyrir hversu marga starfsmenn um er að ræða en mbl.is hefur óskað eftir þeim upplýsingum og munu þær liggja fyrir síðar í dag að sögn upplýsingafulltrúa Landspítalans. 

Starfsmenn þurfa að fylgjast með einkennum sem geta bent til Covid-19 sem eru meðal annars hiti, hósti, mæði, hálssærindi, skyndileg almenn vanlíðan (s.s. höfuðverkur, slappleiki, beinverkir).

Fyrirmælin frá farsóttanefnd Landspítala eru svohljóðandi: 

1. Starfsmenn Landspítala sem komu frá Ítalíu frá og með 29.02.2020 kl. 08:00 (óháð því hvaða leið viðkomandi kom til landsins) verði í heimasóttkví í 14 daga frá heimkomu.

2. Starfsmenn Landspítala sem komu frá Ítalíu á tímabilinu 22.02.2020-28.02.2020 og hafa verið í vinnu mega vinna áfram ef þeir eru einkennalausir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert